Sýklalyfjanotkun dregst mikið saman

Emil Lárus Sigurðsson er forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar íslenskra heilsugæslu.
Emil Lárus Sigurðsson er forstöðumaður Þróunarmiðstöðvar íslenskra heilsugæslu. mbl.is/Sigurður Bogi

Verulega hefur dregið úr notkun breiðvirkra sýklalyfja hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á síðasta árinu og er hún nú orðin mun skynsamlegri en áður. Þetta kom fram í morgun á kynningarfundi Þróunarmiðstöðvar íslenskra heilsugæslu sem er eins árs um þessar mundir. Unnið er að ýmsum umbótaverkefnum í heilsugæslunni hjá miðstöðinni sem öll miða að framþróun í heilbrigðismálum.

Ofnotkun sýklalyfja og ómarkviss notkun þeirra er ein af ástæðum sýklalyfjaónæmis sem er vaxandi vandamál og alvarleg heilbrigðisógn á heimsvísu. Nú hefur hún dregist um 20-30% á skömmum tíma. Emil Lárus Sigurðsson forstöðumaður þróunarmiðstöðvarinnar segir við blasa að ráðast verði í sambærilegt verkefni til að sporna við ofnotkun sterkra verkalyfja sem innihalda ópíóíða og geta valdið alvarlegri fíkn.

Miðstöð vegna lífsstílssjúkdóma

Emil greindi frá því á kynningarfundinum í dag að verið væri að þróa ný vinnubrögð vegna meðhöndlunar sjúklinga með sykursýki. Hann segir verkefnið mikilvægt fyrsta skref að því markmiði að koma á laggirnar heilsueflandi móttöku í heilsugæslu þar sem sinna megi ýmsum lífsstílssjúkdómum. Móttökustöðvar þessar geti svo sinnt fleiri hópum svo sem sjúklingum sem glíma við háþrýsting, offitu, stoðkerfisverki, andlega vanlíðan og svo framvegis. Eiga þessi verkefnin að ná til heilsugæslu um allt land.

Fyrirrennari ÞÍH er Þróunarstofa heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með ákvörðun ráðherra og auknum fjármunum fékk hin nýja Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu meira sjálfstæði en forveri hennar og víðtækara hlutverk en henni er ætlað að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu. Þrettán sérfræðingar starfa hjá stöðinni sem á ári hverju hefur úr 230 milljónir króna úr að spila.

Verði fyrsti viðkomustaður

Heilbrigðisráðherra skipar þróunarmiðstöðinni fagráð sem vinnur að stefnumörkun og skapar tengsl. „Það er til mikils að vinna að heilsugæslan geti verið fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Uppbygging þróunarmiðstöðvarinnar er hluti af því,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherraá kynningarfundinum í gær. Mikilvægt væri sömuleiðis að sjúklingar leituðu á réttan stað eftir þjónustu eins og við ætti hverju sinni; í slíku fælust þægindi fyrir alla, hagræði og sparnaður.  Kynning og fræðsla væru því mikilvægur þáttur í heilsugæslustarfi.

Heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert