„Aldrei séð svona mikið vatn“

Ófært var inn í Langavatnsdal í dag.
Ófært var inn í Langavatnsdal í dag. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

„Þetta er þriðja árið hjá mér og ég hef aldrei séð svona mikið vatn,“ segir Magnús Fjeldsted, veiðivörður við Norðurá í Borgarfirði, í samtali við mbl.is, spurður um veður og vatnavexti á svæðinu í dag. Eins og greint hefur verið frá hefur úrkoma verið gríðarmikil á Vesturlandi í dag og þurfti m.a. aðstoð þyrlu Landhelgisgæslu vegna fólks sem varð innlyksa í Langavatnsdal í dag.

Magnús segir að vatnavextir hafi verið gríðarlegir hjá sér, áin hafi farið upp í 340 rúmmetra á sekúndu fyrr í dag. Þá segir hann að veiðitímabilinu í Norðurá hafi lokið síðasta sunnudag, en að hann viti af öðrum stöðum á svæðinu þar sem enn er veitt. Þó segir hann: „Það þýðir ekkert að veiða í svona. Þetta er bara eins og stórfljót. Svo komast menn ekki nema erfiðlega um.“

Síðustu daga hefur rignt ansi hressilega víða um land. Vesturland …
Síðustu daga hefur rignt ansi hressilega víða um land. Vesturland kemur líklega verst undan nóttinni sem framundan er. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Önnur gusa seint í kvöld“

Í samtali við mbl.is í dag varaði veðurfræðingur við hættu á skriðuföllum.

Spurður hvort hættan sé bundin við ákveðinn jarðveg kveður Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, já við. Nefnir hann sem dæmi að á svæðum þar sem er fremur þunnur jarðvegur, og stutt niður á klöpp, geti skriða komist af stað þegar vatn rennur undir. Minnist hann skriðunnar sem fór af stað í Hítardal í fyrra, og vakti mikla athygli, og segir að þar hafi sem dæmi líklegast verið sprunga undir sem vatn komst í, og skriðan hafi í kjölfarið farið af stað. 

Komist vatnið undir jarðveginn, og lyfti honum upp, þá renni hann bara af stað „allt þar til Newton hættir að toga með“.

Borgarbúar þurfa áfram að klæðast litríkum regnkápum sínum þar til …
Borgarbúar þurfa áfram að klæðast litríkum regnkápum sínum þar til síðdegis morgundags, allavega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður um veðurhorfur næstu daga segir Óli: „Það er eitthvað minni úrkoma núna næstu tímana, svo kemur önnur gusa seint í kvöld, sérstaklega á Vesturlandi. Svo rignir nokkuð ákveðið bróðurpart morgundagsins. Á suðvesturhorninu fer þetta að minnka síðdegis en verður viðloðandi Breiðafjarðarsvæðið, Snæfellsnes og Vestfirði þar til annað kvöld. Seint annað kvöld verður þetta farið norður úr og þá erum við að tala um mikið minni úrkomu. Þá ætti allt að ná að jafna sig í rólegheitum yfir helgina.“

Nánast einungis fært fyrir báta

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði nú í kvöld að ekki hefðu borist fleiri erindi tengd veðrinu frá því að björgunarsveitir sinntu fyrrnefndu útkalli í Langavatnsdal í dag. Spurður út í aðstæður þar sagði hann að hann hefði fátt heyrt annað en að vatnavextir hefðu verið gríðarlegir og að menn hefðu sagt að nánast hefði einungis verið fært fyrir báta. Því hefði farsælasta lendingin verið, þegar búið var að finna fólkið, að þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við björgunina.

Höfuðborgarbúar hafa einnig margir fundið fyrir miklu vatnsveðri, og þurfti slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu að fara í tvö útköll vegna minni háttar vatnsaga í dag. Brýnir slökkviliðið fyrir borgarbúum að hreinsa frá niðurföllum.

Veiðivörður í Norðurá hafði aldrei séð eins mikið vatn í …
Veiðivörður í Norðurá hafði aldrei séð eins mikið vatn í ánni og var í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Einar Falur
Skriðan sem féll í Hítardal í fyrra.
Skriðan sem féll í Hítardal í fyrra. Ljósmynd/Mihails Ignats
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert