Færri 19 ára nemendur í skóla

Skólasókn 19 ára nemenda í skólum ofan grunnskóla minnkaði úr …
Skólasókn 19 ára nemenda í skólum ofan grunnskóla minnkaði úr 68,4% haustið 2017 í 59,9% haustið 2018. Hlutfall 19 ára og yngri hefur þó hækkað umtalsvert á háskólastigi, eða úr 4,3% árið 2017 í 10,8% árið 2018. mbl.is/Golli

Skólasókn 19 ára nemenda í skólum ofan grunnskóla minnkaði úr 68,4% haustið 2017 í 59,9% haustið 2018. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar en þar er bent á að fækkunin tengist að líkindum styttingu náms til stúdentsprófs og bendir til þess að ekki fari allir þeir nemendur, sem hafa lokið stúdentsprófi eftir þrjú ár beint í háskólanám. Hlutfall 19 ára og yngri hefur þó hækkað umtalsvert á háskólastigi, eða úr 4,3% árið 2017 í 10,8% árið 2018. Skólasókn 20 ára á háskólastigi hækkaði hins vegar minna, eða úr 19,0% í 20,8% sömu ár. Skólasókn sýnir hlutfall nemenda af viðkomandi aldurshópi. 

Skólasókn kvenna meiri en karla

Skólasókn 16 ára nemenda var 94,8% haustið 2018, sem er lítið breytt frá árinu áður, en minni en árin 2011–2015 þegar hún fór hæst í 95,5%. Skólasókn haustið 2018 minnkaði meðal drengja en óx meðal stúlkna þegar miðað er við haustið 2017 og var 93,8% hjá drengjum en 95,8% hjá stúlkum.

Þá var skólasókn kvenna meiri en karla í öllum árgöngum 16-29 ára að 19 ára nemendum undanskildum. Ef eingöngu er litið á nemendur á framhaldsskólastigi voru karlar hlutfallslega fleiri en konur frá 19 ára aldri, sem gefur vísbendingu um að á þeim aldri séu margar konur búnar að ljúka framhaldsskóla en karlarnir ekki. Undanfarin ár hefur 20 ára verið yngsti árgangurinn þar sem karlar voru fleiri en konur í námi á framhaldskólastigi en árið 2018 hafði það færst niður í 19 ára árganginn.

Fjölgar á háskólastigi en fækkar á öðrum skólastigum

Sé hins vegar horft til fjölda nemenda, þá voru nemendur á skólastigum ofan grunnskóla 40.977 haustið 2018, rúmlega 600 færri en árið áður. Nemendum fækkaði á framhaldsskólastigi, viðbótarstigi og doktorsstigi en nemendum á háskólastigi neðan doktorsstigs fjölgaði töluvert.

Á framhaldsskólastigi stunduðu 21.488 nemendur nám og fækkaði um 4,1% frá hausti 2017. Karlar voru í meirihluta nemenda, eða 51,8%. Á háskólastigi í heild voru 18.346 nemendur sem er fjölgun um 2,4% frá fyrra ári. Fjölgunin varð eingöngu meðal kvenna sem fjölgaði um 4,4% og voru þær 64,7% háskólanemenda haustið 2018. Körlum í háskólanámi fækkaði lítillega, um 0,9%. Nemendum á doktorsstigi fækkaði um 60 frá hausti 2017, eða um 9,4%, og voru 577 talsins haustið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert