Spurði um „borgarlínufyrirbæri“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Getur fjármálaráðherra hugsað sér að slíkt gjald verði lagt á, gjald fyrir að aka um vegi höfuðborgarsvæðisins, og að það renni í þetta borgarlínufyrirbæri?“ spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í dag. Hann beindi spurningunum til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Sigmundur sagði að búið væri að kynna fyrir einhverjum sveitarstjórnarmönnum einhver „svakaleg áform um framkvæmdir í samgöngumálum og nýja gjaldtöku, nýja skattlagningu til að standa straum af þeim áformum,“ eins og Sigmundur orðaði það.

Sigmundur sagði að sér virtist sem fólk ætti að greiða fyrir það eitt að fara um götur borgarinnar sem það hefði þegar verið búið að borga með sköttum. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Nauðbeygð til að breyta allri gjaldtöku

Bjarni sagði að við værum nauðbeygð til að gjörbreyta allri gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og samgöngum í landinu. 

Það er út af orkuskiptunum. Í fyrra gáfum við eftir 3 milljarða í virðisaukaskatti til að fá inn umhverfisvæna bíla. Við tökum engin vörugjöld af rafmagnsbílum. Við tökum engan virðisaukaskatt af rafmagnsbílnum ef hann er undir ákveðnu kostnaðarverði og við gefum mjög mikinn afslátt ef hann er dýr í innkaupum. Þessir bílar fara um göturnar án þess að leggja nokkuð til vegna þess að þeir fara aldrei á dæluna. Þeim er að fjölga og þeim er að fjölga hratt og þeim fjölgar næsthraðast í heiminum á Íslandi, umhverfisvænum bílum og rafmagnsbílum,“ sagði Bjarni.

Hann sér því fyrir sér að fólk muni greiða fyrir notkun á vegakerfinu en það muni einnig greiða miklu minna fyrir að eignast bíl og eldsneyti.

Bjarni sagði að síðustu tvær ríkisstjórnir hefðu fengið áskorun frá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um að greiða betur fyrir almenningssamgöngum. „Aðalatriðið er að samkomulagið sem er í smíðum er um stórfellda uppbyggingu á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð.

Halda áfram að þrengja að umferðinni

Sigmundur sagði það tíðindi að greiða ætti fyrir umferð. „Borgarlínan er einmitt til þess hugsuð að taka pláss af bílunum svoleiðis að ekki er verið að tala um ný gatnamót, það er ekki verið að tala um Sundabraut, það er ekki talað um aðgerðir sem raunverulega væru til þess fallnar að greiða fyrir samgöngum heldur þvert á móti á að halda áfram á þeirri braut að þrengja að umferðinni og refsa mönnum svo sérstaklega fyrir það að sitja fastir með einhvers konar nýjum gjöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert