Í gæsluvarðhaldi og einangrun fyrir kókaínsmygl

Konan var handtekin fyrir kókaínsmylg. Mynd úr safni.
Konan var handtekin fyrir kókaínsmylg. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Íslensk kona hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald og einangrun í eina viku vegna kókaínsmygls, en hún var handtekin á Keflavíkurflugvelli 16. september með 50 pakkningar með samtals 401,24 grömm af kókaíni og 0,49 grömm af amfetamíni. Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms í máli konunnar.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem fer með rannsókn málsins, kemur fram að grunur hafi komið upp um að konan hafi verið að smygla fíkniefnum. Hins vegar hafi ekki komið til líkamsleitar, þar sem hún viðurkenndi við tollgæslu að vera með fíkniefni meðferðis og fjarlægði hún 50 pakkningar af ætluðum fíkniefnum úr nærfötum sínum. Taldi hún sjálf að pakkningarnar innihéldu kókaín.

Rannsókn málsins er á frumstigi og segir í greinargerðinni að lögreglan þurfi að rannsaka aðdraganda ferðar konunnar hingað til lands og tengsl við hugsanlega vitorðsmenn hér á landi eða erlendis.

Héraðsdómur tók undir með lögreglunni að konan væri undir rökstuddum grun um brot sem varðaði fangelsi og að með óskertu fresli gæti hún torveldað rannsókn málsins. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert