Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu skoðar mál á Sauðárkróki

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og sveitarstjórnarmaður, veltir því fyrir sér …
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og sveitarstjórnarmaður, veltir því fyrir sér hvers vegna ákveðnir aðilar hafi fengið skyndilegan áhuga á málinu á þessum tímapunkti. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu barst kvörtun frá ónefndum aðila þess efnis að Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra og sveitarstjórnarmaður Skagafjarðar, hefði misnotað aðstöðu sína á lögreglustöðinni á Sauðárkróki til að ræða málefni sveitarfélagsins og var lögregluembættið í kjölfarið beðið um að taka afstöðu til kvörtunarinnar.

Í svari lögregluembættisins til nefndar um eftirlit um störf lögreglu 25. júní sl. kom fram að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Þrátt fyrir það hefur nefndin ekki enn afgreitt málið.

Þetta kemur fram í facebookfærslu Stefáns sem hann birti í gær. Þar segist hann alla jafnan ekki nota samfélagsmiðilinn mikið til að tjá sig en þar sem að „ákveðnir aðilar“ væru farnir að spyrjast fyrir um kvörtunina „með það að leiðarljósi að birta í fjölmiðlum“ ákvað hann að breyta af vananum og greina sjálfur frá málinu. Hann veltir því fyrir sér hvaða ástæður liggja að baki því að þessir aðilar séu nú farnir að veita málinu athygli.

„Barði í borð og henti hlutum“

Í færslunni segir Stefán að síðasta vetur hafi maður komið til hans, þar sem hann var staddur í afgreiðslunni á lögreglustöðinni á Sauðárkrók, og óskað eftir því að ræða við Stefán á skrifstofu hans. Stefán þekkti manninn, varð við beiðni hans og settust þeir niður á skrifstofu Stefáns og tóku tal saman.

„Fljótlega var ljóst að erindi mannsins væri tengt störfum mínum fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Ég tjáði honum eftir að hann hafði borið upp erindi sitt að málið þyrfti að ræðast á öðrum vettvangi og á öðrum tíma,“ skrifar Stefán og bætir við:

„Tók hann því mjög illa, varð mjög æstur og barði í borð og henti hlutum niður á skrifstofunni. Tjáði ég manninum að ljóst væri að við kæmust ekki lengra með samtalið og óskaði eftir að hann yfirgæfi skrifstofuna sem hann neitaði að gera. Eftir nokkurt þref yfirgaf maðurinn skrifstofuna og fór, mjög ósáttur.“

Von á niðurstöðu í næsta mánuði

Stefán segir að nokkru síðar hafi embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra borist erindi frá nefnd um eftirlit um störf lögreglu þar sem embættið var beðið um að taka afstöðu til kvörtunar þess efnis að Stefán væri að misnota aðstöðu sína sem yfirlögregluþjónn. Embættið hafi, sem fyrr segir, svarað erindinu í sumar og metið málið þannig að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í málinu.

„Umrædd kvörtun hefur ekki verið endanlega afgreidd af hálfu nefndarinnar en von er á niðurstöðu í næsta mánuði. Það er ljóst að ég og umræddur maður ræddum málefni sveitarfélagsins á skrifstofu minni en erindið vissi ég ekki fyrr en þangað var komið. Ég hef þau 11 ár sem ég hef verið yfirlögregluþjónn ekki lagt það í vana minn að spyrja fólk um erindið í afgreiðslu lögreglustöðvarinnar þar sem oft á tíðum eru um erfið og viðkvæm mál að ræða,“ skrifar Stefán og heldur áfram:

Fyrsta kvörtunin í 22 ár

„Þau rúmu 22 ár sem ég hef starfað í lögreglu hefur aldrei nema í þetta eina skipti verið kvartað undan störfum mínum á þeim vettvangi þrátt fyrir aðkomu mína af mörgum erfiðum og flóknum málum. Sú umræða sem uppi hefur verið um bílamál lögreglunnar hafa ekki farið fram hjá neinum og hef ég aldrei legið á skoðun minni í þeim efnum, að tími bílamiðstöðvar hafi runnið sitt skeið á enda og breytinga sé þörf. Nú liggur fyrir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um niðurlagningu bílamiðstöðvar frá og með næstu áramótum sem að mínu mati er hagfeld lögreglunni í landinu.“

„Svari hver fyrir sig“

Í lok færslunnar veltir Stefán því fyrir sér hvaða ástæður liggi að baki því að nú á þessum tímapunkti séu aðilar farnir að veita málinu athygli. „Svari hver fyrir sig.“

Stefán vildi ekki tjá sig um færsluna eða málið í samtali við mbl.is. Þá náðist ekki í Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert