„Þarna birtist pólitíkin grímulaust“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir oft þurfa að rýna …
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir oft þurfa að rýna djúpt í fjárlagafrumvarpið til að finna það sem raunverulega sé þar að finna. mbl.is/​Hari

Þó að talað sé um stórsókn í menntamálum lækka fjárframlög til framhaldsskóla milli ára og raunupphæðin sem Háskóli Íslands og Háskóli Akureyrar fá er nánast sú sama og í fyrra. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vekur máls á þessu og fleiru tengdu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í færslu á Facebook.

„Að sitja í fjárlaganefnd Alþingis er heilmikil vinna enda mikið fundað um stór mál. En að sama skapi er sú vinna afar fróðleg. Þarna fær maður innsýn í 1.000 milljarða kr. bókhald ríkisins. Og þarna birtist pólitíkin grímulaust,“ segir Ágúst Ólafur í færslu sinni. Það þurfi þó oft að rýna ansi djúpt í 400 blaðsíðna  frumvarpið ásamt 200 bls. fylgirit til að finna það sem raunverulega er í frumvarpinu.

Hann birtir því dæmi um 16 mál sem honum finnst fólk eiga að vita af.



„Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt þegar menntamálaráðherra getur endalaust talað um „stórsókn“ í háskólamálum,“ segir Ágúst Ólafur.

Þá séu framhaldsskólar beinlínis  að fá lækkun á fjármunum milli ára. „Og aftur er það skrýtin stórsókn sem ráðherra verður svo tíðrætt um. Eina stórsóknin í menntamálum virðist vera í yfirlýsingum menntamálaráðherrans.“

Fjárframlög til almennrar lögreglu lækka

Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar lækki um tæp 30% og eins lækki framlög til almennrar lögreglu umtalsvert og þá fái aldraðir enga innspýtingu umfram það sem kemur vegna fjölgunar í þeirra hópi.

„Þrátt fyrir augljósa þörf og mikinn halla hjá LSH vill ríkisstjórnin ná 1,2 milljörðum kr. í aðhaldi úr heilbrigðiskerfinu. Á meðan er ófremdarástand á bráðamóttökunni og 130 eldri borgarar látnir „búa“ á spítalanum vegna skorts á öðrum úrræðum.“ Ágúst Ólafur vekur þessu tengt einnig athygli á því að rekstur vegna uppbyggingar á hjúkrunarrýmum á næstu árum sé ekki fjármagnaður.

Sérstök aðhaldskrafa sé raunar lögð á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.

Þá fái umhverfismál „heil 2% af fjárlögum. Þegar 98% fjárlaga fer í annað má velta fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru. Aftur eru það helst yfirlýsingar ráðherra sem eru bólgnar og það sem er helst sett í forgang eru blaðamannafundirnir,“ segir Ágúst Ólafur í færslu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert