„Við virðum það að fólk sé í veikindaleyfi“

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

„Ég veit ekki hvort það sé réttnefni að kalla þetta sáttaumleitanir. Þetta hafa verið óbilgjarnar kröfur settar fram meira og minna undir einhvers konar hótunum um lögsóknir með reglulegum fjölmiðlaupphlaupum sem eru augljóslega ætluð til að þvinga okkur til að ganga að kröfum þessara einstaklinga.“

Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Eflingar, í samtali við mbl.is spurður hvort sáttaumleitunum fjögurra einstaklinga, núverandi og fyrrverandi starfsmanna Eflingar, við stéttarfélagið sé lokið eða hvort þær séu enn í gangi.

Tveir fyrrverandi starfsmenn Eflingar sem telja að brotið hafi verið á réttindum sínum hafa gert kröfur á hendur Eflingu með aðstoð lögmannsins Láru V. Júlíusdóttur. Þá hafa tveir núverandi starfsmenn Eflingar, sem eru í veikindaleyfi, sömuleiðis leitað til Láru vegna þess að þeir telja að á sér hafi verið brotið. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi sagði Lára að það væri munur á því hvað Efling predikaði og iðkaði.

Efling sendi frá sér yfirlýsingu í morgun vegna fréttaflutnings gærkvöldsins þar sem ásökunum og kröfum fjórmenninganna og Láru var hafnað. Þar sagði að þær ásakanir sem birst hefðu í fjölmiðlum væru til þess fallnar að þvinga stéttarfélagið til þess að „gera óeðlilega samninga sem eru langt umfram réttindi samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi“.

„Eina skýringin á því hvers vegna málin eru sí og æ rekin í fjölmiðlum er að lagalegan grunn skortir fyrir umræddum kröfum,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Óeðlilegt að hafa frumkvæði að starfslokum fólks í veikindaleyfi

Í samtali við mbl.is segir Viðar að Efling líti ekki svo á að stéttarfélagið sé í virkum viðræðum við fjórmenninganna eða beri skylda til þess. „Sérstaklega í ljósi þess að við erum með fólk sem er í veikindum og við teljum ekki eðlilegt að við séum að eiga frumkvæði að viðræðum um starfslok við fólk sem er í veikindaleyfi. Við virðum það að fólk sé í veikindaleyfi.“

Einn af þeim sem hafa leitað til Láru er Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar. Hann gerði starfslokasamning við Eflingu eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók við störfum. Hann fer nú fram á það að samningurinn verði endurskoðaður. Sólveig Anna tjáði sig um mál Þráins í facebookfærslu sem hún birti fyrr í dag.

„Varðandi mál Þráins Hallgrímssonar þá höfum við engu við það að bæta,“ segir Viðar. „Það stendur, eins og við höfum gefið út, og við teljum að með því að hafa gert starfslokasamning við hann sé okkar málum lokið. Það er okkar afstaða,“ bætir hann við.

Fjórði einstaklingurinn leitaði nýverið til Láru vegna þess að hún taldi að Efling hefði brotið á réttindum sínum er henni var sagt upp í lok ágústmánaðar vegna skipulagsbreytinga. Viðar segir að Efling líti svo á að mál þessara fjögurra einstaklinga séu ekki tengd á neinn hátt öðruvísi en svo að allir hafi leitað liðsinnis sama lögmanns, Láru V. Júlíusdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert