„Allir geta elskað að spila Tetris“

Svavar, fyrir miðju, ásamt hressum vinum eftir sigurinn í gærkvöld.
Svavar, fyrir miðju, ásamt hressum vinum eftir sigurinn í gærkvöld. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er allt vegna ástríðu fyrir leiknum og menningunni sem hefur myndast í kringum leikinn,“ segir Svavar Gunnar Gunnarsson spurður um áhuga sinn á tölvuleiknum Tetris, en Svavar var í gærkvöld krýndur Evrópumeistari í tölvuspilinu þriðja árið í röð. Mótið var haldið í Kaupmannahöfn, þar sem Svavar er búsettur, en í næsta mánuði heldur hann til Portland í Bandaríkjunum þar sem hann mun keppa á heimsmeistaramótinu í Tetris. Vitanlega ætlar hann að vinna það einnig. 

„Meira en áhugamál“

„Ég hef tekið þátt öll árin frá því að Evrópumótið var haldið í fyrsta skipti fyrir fimm árum. Fyrstu tvö skiptin lenti ég í þriðja sæti og svo hef ég unnið það núna seinustu þrjú ár,“ segir Svavar sem er að vonum ánægður með tölvuspilsárangurinn. Spurður um framkvæmd mótsins segir hann að það sé haldið yfir tvo daga á safni í Kaupmannahöfn. Fyrri daginn koma allir sem vilja fá aðgang að hinu raunverulega móti og spila eins marga Tetris-leiki og þeir geta í tilraun til að ná sem mestum stigafjölda. Þeir sextán sem flestum stigum ná halda svo áfram í útsláttarkeppnina degi síðar. Segir Svavar að um fimmtíu Tetris-spilarar frá löndum hvaðanæva úr Evrópu hafi spreytt sig í Kaupmannahöfn um helgina. 

Svavar einbeittur við tölvuspil á Tetris-móti í fyrra.
Svavar einbeittur við tölvuspil á Tetris-móti í fyrra. Ljósmynd/Morten Riis Svendsen

Eins og við má búast er Svavar duglegur að spila Tetris á milli móta. „Þetta er svolítið meira en áhugamál, myndi ég segja,“ segir hann og hlær en Svavar er með meistaragráðu í kennilegri eðlisfræði frá Niels Bohr-stofnuninni við Kaupmannahafnarháskóla. „Ég er búinn að vera andsetinn af Tetris-andanum í frekar langan tíma,“ heldur Svavar kíminn áfram og segist einfaldlega elska að spila Tetris eins mikið og hann getur.

Tekur leikina upp og horfir á þá síðar

Spurður um æfingarnar segist Svara taka alla leiki sem hann spilar upp. „Ég tek upp alla leiki sem ég spila og horfi á þá eftir á. Ég reyni þá að greina hvað það er sem ég gæti mögulega gert betur.“ Þá segist hann gagngert reyna að bæta stigamet sín og annarra og segir að hann hafi eitt sinn átt heimsmetið fyrir flest stig í Tetris. Nú sé hann hins vegar næsthæstur. 

Spurður hvort hann sinni „áhugamálinu“ helst á kvöldin svarar Svavar glettinn: „Ég spila í öllum frístundum sem ég hef. Ef ég sé smugu fyrir Tetris þá spila ég.“ 

Keppendur og áhorfendur eftir mótið í gær. Fyrir miðju hægra …
Keppendur og áhorfendur eftir mótið í gær. Fyrir miðju hægra megin sést Svavar með verðlaunagripinn sinn. Við hlið hans sést sá sem sigraði mótið í flokki þeirra sem kepptu á Gameboy-tölvu. Ljósmynd/Tine Hviid Roger

Blaðamaður kemst ekki hjá því að spyrja hvort einhver peningur sé í því að vinna Tetris-mót og segir Svavar að svo sé ekki. „Það eru einhver smá peningaverðlaun fyrir að vinna heimsmeistaramótið.“ Það er því morgunljóst að gróðahyggjan er ekki ástæðan fyrir miklum áhuga Svavars á tölvuspilinu. En hvað ætli það sé við tvívíða kubbaleikinn frá Sovétríkjunum sem er svona skemmtilegt? Verður maður ekkert þreyttur á að spila alltaf sama leikinn? 

„Gætirðu ekki sagt það sama um skák?“ svarar Svavar og segir: „Málið er nefnilega að engir tveir Tetris-leikir eru eins. Möguleikarnir á því hvernig þú getur staflað þessum sjö kubbum sem eru í Tetris eru nánast óendanlega margir. Maður er alltaf að kljást við ótrúlega heillandi geómetrískt flæði. Það skorar alltaf á heilann að leysa nýja geómetríska þraut.“ 

Stefnir ekki á minna en heimsmeistaratitilinn

Spurður hvert aldursbil keppenda í Tetris sé, hvort það séu bara þeir sem ólust upp við leikinn sem keppa, segir Svavar að svo sé ekki. Um það vitni sem dæmi að heimsmeistarinn í Tetris frá því í fyrra hafi verið sextán ára þegar hann vann. „Aldursbilið er frá sextán og upp í fertugt, jafnvel fimmtugt,“ segir Svavar og segir: „Eitt af því sem ég einnig elska við Tetris er að það er enginn ákveðinn markhópur. Allir geta elskað að spila Tetris.“

Sem fyrr segir ætlar Svavar að keppa á heimsmeistaramótinu í Tetris í Bandaríkjunum í næsta mánuði, en þar keppti hann einnig í fyrra og hafnaði í áttunda sæti. Spurður hvort hann ætli ekki bara að taka heimsmeistaratitilinn í ár segir Svavar: „Ég er búinn að vera mjög sigurstranglegur núna í langan tíma og stefni ekki á minna en sigur á heimsmeistaramótinu í næsta mánuði.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert