Katrín situr leiðtogafund um loftslagsmál

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sækir leiðtogafund um loftslagsmál á 74. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem stendur yfir þessa dagana í New York.

Loftslagsfundurinn er haldinn að frumkvæði aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antónios Guterres, þar sem hann kallar eftir afgerandi forystu leiðtoga heims á vettvangi loftslagsbreytinga og hvetur ríki til þess að grípa til róttækra aðgerða til að forðast verstu afleiðingar loftslagsvárinnar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Forsætisráðherra mun einnig sækja leiðtogafund um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur leiðtogafundur er haldinn frá því að heimsmarkmiðin voru samþykkt árið 2015.

Leiðtogafundurinn mun jafnframt samþykkja sérstaka yfirlýsingu þar sem áréttaðar eru þær skuldbindingar sem ríki hafa samþykkt með heimsmarkmiðunum um að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir, fátækt og hungri verði útrýmt, komið verði á jafnrétti kynjanna, gæði menntunar verði aukin og ríki virði skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, o.fl.

Stjórnar pallborðsumræðum um sjálfbæra þróun

Forsætisráðherra mun á fundinum stjórna einum af sex pallborðsumræðum leiðtoga, ásamt forseta Kosta Ríka: Leaders Dialogue 2 – „Accelerating the achievement of the Sustainable Development Goals: Critical entry points“.

Í leiðtogavikunni mun forsætisráðherra einnig eiga tvíhliða fundi með þjóðarleiðtogum og taka þátt í ýmsum hliðarviðburðum um jafnréttis- og loftslagsmál í tengslum við allsherjarþingið á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert