Segir forystu Eflingar haga sér eins og „verstu skúrkar“

Deilur eru milli starfsmanna og stjórnar Eflingar.
Deilur eru milli starfsmanna og stjórnar Eflingar. Ljósmynd/Efling

Tveir starfsmenn Eflingar, Kristjana Valgeirsdóttir fjármálastjóri og Elín Hanna Kjartansdóttir bókari, sendu frá sér yfirlýsingu vegna ummæla framkvæmdastjóra Eflingar í fjölmiðlum í gær.

Þær furða sig báðar á þeim ummælum Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra að þær reyni að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega háa samninga við sig. Þær þvertaka fyrir það og segja Viðar sem og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, fara með ósannindi um mál þetta.    

Elín Hanna er 65 ára gömul og er starfsmaður Eflingar sem og félagsmaður. Hún greinir frá því að veikindi sín séu „rakin til framkomu og atburða af hálfu stjórnenda á skrifstofu félagsins“. Hún greinir frá því að þeir tölvupóstar sem hún sendi hafi verið sendir til að upplýsa um stöðu mála og lýsing á atburðum. Þeir fóru á miðstjórn og lykilstarfsmenn ASÍ, til stjórnar Starfsgreinasambandsins og stjórnar Eflingar.

„Ég á ekki nógu sterk orð yfir það virðingarleysi sem formaður og framkvæmdastjóri Eflingar hafa sýnt okkur starfsmönnum og félagsmönnum með þessum málflutningi.“ Þetta segir Elín Hanna í yfirlýsingu sinni.

„Tugmilljónakröfur er því ekkert annað en áróður“

Kristjana Valgeirsdóttir segir að Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hafi neytt hana í veikindaleyfi og reynt að bola henni úr starfi. Hún segir að Viðar „gleymi því vísvitandi að það voru athugasemdir mínar og bókara Eflingar vegna ósamþykktra fjárútláta, til vildarvina hans og formanns félagsins, sem leiddu til þess að mér og bókara var gert ókleift að starfa og við hrökkluðumst í veikindaleyfi“, segir Kristjana. 

Kristjana fullyrðir jafnframt að þeim Elínu Hönnu hafi verið gefin „upp kröfugerð sem aldrei hefur komið fram“.   

„Staðreyndin er sú að þau Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson hafa aldrei léð máls á neinum samningum við okkur starfsmenn. Þau tala eingöngu við okkur í gegnum lögfræðinga sína og hafa aldrei, á undanförnum mánuðum, fallist á samningaviðræður. Tugmilljónakröfur er því ekkert annað en áróður,“ segir Kristjana. Hún bendir á að sér þyki „dapurlegt“ að Efling greini frá því í fjölmiðlum að þetta fari í málaferli. 

„Forysta Eflingar hagar sér þannig eins og verstu skúrkar í atvinnurekendastétt.“ Hún segir þau Viðar og Sólveigu fara með ósannindi um mál þeirra og jafnframt forðast að ræða um kjarna málsins. 

„Við starfsmenn, burtreknir og fólk í veikindaleyfi, erum fórnarlömb þeirrar atburðarásar sem formaður og framkvæmdastjóri Eflingar settu af stað þegar þau komust til valda í félaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert