Tómstundir verði fjölbreyttari í hverfi 111

„Það er auðvitað svolítið einkennandi fyrir hverfið að hér býr …
„Það er auðvitað svolítið einkennandi fyrir hverfið að hér býr margt fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku.“ mbl.is/Sigurður Bogi

Fjölbreyttara framboð tómstunda og betri kynning á þeim sem í boði eru er meðal þess sem skólastjórar í Fella- og Hólahverfi í Reykjavík telja að geti haft jákvæð áhrif á notkun frístundakortsins hjá börnum í hverfinu.

Borgarráð samþykkti á fimmtudaginn að vísa tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um átak í notkun frístundakorts í hverfi 111, Hóla- og Fellahverfi, til menn­ing­ar-, íþrótta- og tóm­stundaráðs.

„Það er auðvitað svolítið einkennandi fyrir hverfið að hér býr margt fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku og það getur skýrt þetta að hluta til, vænti ég, að fólk einfaldlega átti sig ekki á því hvað er í boði,“ segir Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla, í samtali við mbl.is.

Íþróttin aðallega verið fótbolti

„Það þarf að kynna þetta betur fyrir fólki,“ segir Sigurlaug en bendir á að nú horfi til betri vegar í þessum málum með verkefninu Velkomin, sem feli m.a. í sér að fulltrúi frá þjónustumiðstöð Breiðholts komi inn á fundi með nýjum nemendum í hverfinu og forráðamönnum þeirra og fari yfir það sem í boði er, sem og notkun frístundakortsins.

Hólmfríður Guðjónsdóttir, skólastjóri í Hólabrekkuskóla, tekur undir með Sigurlaugu og segir það af hinu góða að verið sé að taka saman hvað sé í boði og auglýsa það betur, en henni er fjölbreytt framboð tómstunda í nærumhverfi íbúa ofarlega í huga.

„Það þarf að kynna þetta betur fyrir fólki,“ segir skólastjóri …
„Það þarf að kynna þetta betur fyrir fólki,“ segir skólastjóri Fellaskóla. mbl.is/Styrmir Kári

„Íþróttin hér hefur aðallega verið fótbolti. Fótboltinn hjá Leikni er mjög góður en auðvitað hafa börnin fjölbreyttari áhugamál. ÍR hefur verið að auglýsa sig hér en börn vilja hafa sem mest í nærumhverfi sínu,“ segir Hólmfríður Guðjónsdóttir og bendir á að því nær sem þjónusta sé íbúum, því betur sé hún nýtt.

„Ég held það sé ágætt framboð en auðvitað skiptir máli að Leiknir býður bara upp á knattspyrnuna,“ tekur Sigurlaug undir en vill taka sérstaklega fram að Leiknir hafi stutt börn í hverfinu alveg ofboðslega vel í íþróttaiðkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert