Váin raunveruleg en lausnirnar einnig

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar hér leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar hér leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í New York í dag. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði óttann einan og sér ekki alltaf leiða til þess að skynsamlegar ákvarðanir væru teknar, er hún ávarpaði leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál síðdegis í dag. Hún sagði að fyrst og fremst þyrfti von til þess að takast á við loftslagsvána.

„Ógnin er raunveruleg, en það eru lausnirnar einnig,“ sagði Katrín, sem hafði áður sagt að það væru engar ýkjur að loftslagsbreytingar ógnuðu samfélögum manna og siðmenningu. Forsætisráðherra sagði að það yrði mikil vinna og myndi kosta að takast á við loftslagsvána, en að hægt væri að grípa til snjallra lausna sem gætu minnkað kostnað og verið til hagsbóta fyrir samfélagið og efnahaginn.

Katrín sagðist fullviss um það að orkuskipti í samgöngum hér á landi myndu skipta miklu máli í baráttunni við loftslagsvána og að þau orkuskipti yrðu einnig mjög góð fjárfesting fyrir samfélagið.

„Eyjan okkar er að verða grænni,“ sagði Katrín um skógræktarátak …
„Eyjan okkar er að verða grænni,“ sagði Katrín um skógræktarátak Íslendinga. AFP

„Þurfum öll að gera meira og betur“

„Lausnirnar eru til staðar til þess að ná kolefnishlutleysi og Ísland hefur lýst yfir því markmiði að verða kolefnishlutlaust árið 2040,“ sagði Katrín meðal annars, en í ræðu sinni fór hún yfir ýmsar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og fjallaði sérstaklega um skógrækt. „Eyjan okkar er að verða grænni,“ sagði Katrín.

Einnig tilkynnti Katrín að Ísland myndi tvöfalda framlög sín í Græna loftslagssjóðinn. Sjóðurinn fjármagnar loftslagsaðgerðir í lág- og meðaltekjuríkjum og gegnir þannig lykilhlutverki við að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Með hækkuninni munu framlög Íslands nema 2 milljónum Bandaríkjadala á tímabilinu 2021-2025, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

„Við þurfum öll að gera meira og betur. Þetta er það sem vísindin segja okkur og skilaboð ungu kynslóðarinnar eru mjög skýr. Við höfum engar afsakanir til þess að grípa ekki til aðgerða núna. Við erum hér í New York til þess að lofa því að gera meira og betur. Látum þennan fund vera fund aðgerða, aðgerða sem tala hærra en orð,“ sagði Katrín.

Finna má ræðu Katrínar í beinu vefstreymi Sameinuðu þjóðanna hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert