Guðni og Eliza sækja Grænland heim

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða fyrr í …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða fyrr í þessum mánuði þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sótti Ísland heim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú halda í formlega heimsókn til Nuuk, höfuðborgar Grænlands, í dag í boði Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands.

Á upphafsdegi heimsóknarinnar skoða forsetahjónin Þjóðminjasafn Grænlands og sækja að því loknu móttöku sem Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður efnir til þeim til heiðurs en þar verða m.a. grænlenskir embættis- og stjórnmálamenn og fulltrúar fyrirtækja, sem átt hafa í samstarfi við íslensk fyrirtæki, auk Íslendinga sem búsettir eru í Nuuk, að því er skrifstofa forseta Íslands greinir frá. 

„Á morgu,n þriðjudag, mun forseti eiga fund með forsætisráðherranum. Þá munu forsetahjónin heimsækja Háskóla Grænlands og ræða þar við starfsmenn og nemendur og halda í þjóðþingið Inatsisartut þar sem forseti á fund með Vivian Motzfeldt þingforseta. Einnig mun forseti eiga fund með landstjóra Dana, Mikaela Engell, og sitja forsetahjónin svo hátíðarkvöldverð í boði forsætisráðherrans í Hans Egede-húsinu.

Áður en heimsókninni lýkur á miðvikudaginn heimsækja forsetahjónin Miðstöð loftslagsrannsókna í Nuuk, Kofoeds-skólann og Royal Arctic Line-sjóflutningafyrirtækið og eiga einnig fund með borgarstjóranum í Nuuk, Charlotte Ludvigsen.

Loks má nefna að forsetafrúin mun eiga fundi með Sara Olsvig, fv. ráðherra sem nú er verkefnisstjóri UNICEF, og með Aviâja Egede Lynge, umboðsmanni barna á Grænlandi,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert