Lögreglu tilkynnt þrjú andlát

Þrjú andlát voru tilkynnt lögreglunni á Suðurlandi í liðinni viku og eru þau rannsökuð eins og skylt er þegar andlát verða utan sjúkrastofnunar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Meðal þeirra látnu er tékkneskur ferðamaður sem fannst við Sprengisandsleið norðan Vatnsfells á föstudag. Krufning á líki hans er áætluð á morgun.

Í tilkynningu lögreglunnar segir að að jafnaði fari fram krufning á líki hins látna nema unnt sé að ákvarða dánarorsök með óyggjandi hætti af ummerkjum á vettvangi og sjúkrasaga viðkomandi sé þess eðlis að krufning sé óþörf.

Á þriðja tug krufninga það sem af er ári

Það sem af er ári hefur á þriðja tug krufninga verið gerður að beiðni embættis lögreglunnar á Suðurlandi. 

Að jafnaði eru það aðstandendur sem gefa leyfi sitt fyrir því að krufning fari fram. Mörgum finnst, við fyrstu skoðun, óþægileg tilhugsun að það þurfi að fara fram krufning en hinsvegar reynist mörgum mun betra að fá þær upplýsingar sem krufningin gefur þar sem slíkt auðveldar úrvinnslu málsins fyrir aðstandendur því þá er vitað með vissu hvað hafi í raun gerst,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert