Tvítugur reykspólari staðgreiddi 70.000

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku er að …
Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku er að finna 730 bókanir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ökumanni fólksbifreiðar sem ók gegn rauðu ljósi við Engjaveg á Selfossi um miðnæturbil á laugardag var gert að greiða sekt, annars vegar fyrir að aka gegn rauðu ljósi og hins vegar vegna hávaða og ónæðis af reykspóli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Þar segir að umræddur ökumaður hafi verið tvítugur að aldri og að hann hafi greitt sekt sína, 70.000 krónur, á staðnum.

Hraðasektir upp á 4 milljónir

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku er að finna 730 bókanir. Af þeim eru 54 hraðaakstrar, flestir á svæðinu í kring um Hvolsvöll og austur fyrir Vík, eða 33. Samanlagðar álagðar sektir vegna þessara brota nema um 4 milljónum króna. 

Þrír ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og tveir undir áhrifum ávana- eða fíkniefna og leiddu afskipti af öðrum þeirra í ljós umfangsmikla kannabisræktun, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að tala í síma við akstur bifreiðar og einn fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Bruni í yfirspennistöð

Þá varð bruni í yfirbyggðri spennistöð á Höfn um miðjan dag í gær. Töluvert tjón varð á tengibúnaði en var húsið mannlaust og urðu engin slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert