Áform um verndun á villtum laxi kynnt í Vopnafirði

Við Selárfoss.
Við Selárfoss. mbl.is/​Hari

Breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe fjármagnar rannsókn tengda uppbyggingu og vernd villta laxastofnsins í ám á Norðausturlandi. Rannsóknin, sem unnin er í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Imperial College, kostar 85 milljónir króna, en greint var frá þessu á fréttamannafundi á Vopafirði í gær.

Að auki eru á teikniborðinu bygging laxastiga, hrognagröftur og skógrækt og uppgræðsla lands, sem er nýmæli á þessu sviði, að því er fram kemur í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.

„Oft er það þannig að menn eru bara að kaupa einhverjar niðurstöður með rannsóknum sem þeir fjármagna. Við erum alls ekki að gera það heldur ætlum við að komast að því hvað er vel gert hér og hvað er miður vel gert. Gögnin og niðurstöður úr þessu verkefni verða lögð fram,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs.

Veiðifélagið blés til kynningar á uppbyggingar- og verndarstarfi tengdu villtum laxi í ám á Norðurausturlandi í gær. Eins og Morgunblaðið hefur greint frá er breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe langstærsti hluthafinn í Streng sem á fjölda jarða á svæðinu. Kaup hans á jörðum hér á landi hafa verið umdeild en jarðirnar nema mörgum tugum og hafa kaupin verið gerð í gegnum fjölda félaga.

Um miðjan ágúst var tilkynnt að Ratcliffe myndi fjármagna nýja rannsókn á laxastofninum á Norðausturlandi í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og að rannsóknin væri hluti af fyrirætlunum hans um vernd Atlantshafslaxins. Nánari útfærsla var kynnt í Vopnafirði í gær.

Gæti skilað árangri á heimsvísu

Umrædd rannsókn er tvíþætt. Hún verður unnin í samstarfi Hafrannsóknastofnunar og lífvísindadeildar Imperial College. Tveir doktorsnemar frá hvorri stofnun munu framkvæma ítarlegar rannsóknir á núverandi stærð laxastofnsins, genakortlagningu fiskanna og reyna að leiða í ljós tengsl milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra úr hafi. Við hið síðastnefnda munu þeir notast við hátæknimerkingar.

Dr. Peter S. Williams, tæknistjóri INEOS Group, fyrirtækis Ratcliffes, tók til máls á fundinum í gær og kvaðst binda miklar vonir við umrædda rannsókn. „Þetta er rannsókn sem gæti skilað árangri á heimsvísu,“ sagði Williams.

Auk rannsóknanna er fyrirhuguð bygging laxastiga til að víkka út uppvaxtarsvæði þeirra í ánum og hrognagröftur ofar í ánum, á svæðum sem laxinn hefur ekki getað gengið áður. Þá á að ráðast í uppgræðslu og skógrækt meðfram laxveiðiánum.  Þegar allt er tekið eru því Jim Ratcliffe og félagar að fara að leggja yfir hundrað milljónir króna í uppbyggingar- og verndarstarf á svæðinu á næstu árum.

Þá skoðar veiðifélagið Strengur uppbyggingu veiðihúss við Miðfjarðará, en heildarkostnaðar á allri uppbyggingunni gæti verið um 600 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert