Tókst ekki að fljúga fyrstu MAX-þotunni í morgun

Búið er að fá heimild til ferjuflugsins hjá Boeing-verk­smiðjun­um í …
Búið er að fá heimild til ferjuflugsins hjá Boeing-verk­smiðjun­um í Banda­ríkj­un­um og flug­mála­yf­ir­völd­um á Íslandi og í Evr­ópu en enn á eftir að ganga frá lausum endum. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki tókst að fljúga fyrstu Boeing 737 MAX 8-farþegaþotunni til Toulouse í Suður-Frakklandi í morgun líkt og vonir stóðu til. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair á enn eftir að afla svokallaðs yfirflugleyfis. 

Fyrir helgi var greint frá því að fimm MAX 8 og einni MAX 9-farþegarþotu Icelandair, sem staðið hafa ónotaðar á Keflavíkurflugvelli frá því um miðjan mars sökum kyrrsetningar, verði flogið ferjuflugi til Tou­lou­se í Suður-Frakklandi þar sem þær verða geymd­ar þar til leyfi fæst til að taka þær í notk­un á ný. 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að enn sé verið að vinna í leyfismálum. „Þetta er heilmikið ferli og við erum að vinna í því og útfæra. Vélarnar eru kyrrsettar og þetta er því háð ýmsum skilyrðum,“ segir hún. Búið er að fá heimild til ferjuflugsins hjá Boeing-verk­smiðjun­um í Banda­ríkj­un­um og flug­mála­yf­ir­völd­um á Íslandi og í Evr­ópu en enn á eftir að ganga frá lausum endum. 

Flug­menn Icelanda­ir fljúga vél­un­um til Frakk­lands og verða tveir flugstjórar um borð í hverri vél og verða þeir sömuleiðis þeir einu um borð í vélinni. Evrópska flugöryggisstofnunin, EASA, setur ítarleg skilyrði sem Icelandair þarf að uppfylla fyrir framkvæmd flugs vélanna, m.a. varðandi flughæð, flughraða og þjálfunarkröfur og reynslu viðkomandi flugstjóra.

Ásdís segir að vonast sé til að gengið verið frá síðustu leyfismálum sem allra fyrst, jafnvel í dag, og þá verði hægt að fljúga fyrstu vélinni á morgun. Vélunum verði svo flogið í nokkrum áföngum. „Þetta mun dreifast, að öllum líkindum fer ein vél fyrst og svo mun þetta dreifast á næstu dögum á eftir.“ Þá verður einnig að taka tillit til veðurskilyrða þegar allra leyfa hefur verið aflað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert