Félagslega einangruð með mæðrum sínum

Bryndís formaður Þroskahjálpar gagnrýnir þá þjónustu sem fötluð börn njóta …
Bryndís formaður Þroskahjálpar gagnrýnir þá þjónustu sem fötluð börn njóta í grunnskólum. mbl.is/Hari

Mörg dæmi eru um að fötluð börn á grunnskólaaldri séu félagslega einangruð heima hjá sér með mæðrum sínum sem hafa þurft að hætta á vinnumarkaði vegna þess að frístundaheimili sinna ekki þörfum barnanna sem skyldi. Þetta segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar. Hún segir algengt meðal foreldra fatlaðra barna að kvíða því þegar börnin fara af leikskóla yfir í grunnskóla.

„Sjálf er ég ein af þessum mæðrum sem þurfti að taka þá ákvörðun að hætta á vinnumarkaði,“ segir Bryndís sem á tvær fatlaðar dætur sem nú eru báðar uppkomnar. „En það eru mörg ár síðan ég var í þessari aðstöðu og ég átti satt best að segja ekki von á því að þetta yrði ennþá svona árið 2019.“

Kerfin tala ekki saman

Að sögn Bryndísar er ein aðalástæðan sú að þjónustan er ekki heildstæð sem skyldi. „Skóli og frístund er eitt kerfi, velferðarþjónusta er annað kerfi og heilbrigðisþjónusta það þriðja. Þessi kerfi tala ekki saman. Foreldrar reka sig ítrekað á að barnið þeirra fær ekki þann stuðning sem það þarf. Þetta skapar gríðarlegt óöryggi og á endanum taka margir þá ákvörðun að annað foreldri hætti á vinnumarkaði. Það er oftar móðirin og það eru mjög mörg dæmi um að konur í þessari stöðu endi sem öryrkjar eftir að hafa þurft að berjast fyrir réttindum barna sinna í mörg ár. Það getur varla ekki verið gott að fötluð börn einangrist heima með mömmum sínum.“

Bryndís segir að dvöl á frístundaheimili sé lögbundin fyrir fötluð börn. „Það er lögbundin skylda sveitarfélaganna að sjá þessum börnum fyrir frístundaúrræði og mér finnst eðlilegt að finna heilstæðar lausnir þannig að foreldrar fatlaðra barna geti aflað tekna og tekið þátt í samfélaginu rétt eins og foreldar ófatlaðra barna.“

Bryndís Snæbjörnsdóttir.
Bryndís Snæbjörnsdóttir.

Bryndís segir grunnskólann vera það skólastig þar sem mest skorti á þjónustu við fötluð börn. „Þau fá samfellda þjónustu í leikskólanum sem yfirleitt er veitt á einum stað, en þegar þau fara í grunnskóla verður þetta flóknara. Ég heyri frá mörgum foreldrum fatlaðra barna að þeir kvíða því þegar barnið þeirra byrjar í grunnskóla. Síðan, þegar þau fara í framhaldsskóla, þá batnar þjónustan aftur. Það er yfirleitt mjög vel haldið utan um þau á starfsbrautunum sem margir fatlaðir unglingar fara á. “

Missa tengslin við krakkana í hverfinu

Aðstæður fatlaðra barna á frístundaheimilum hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu eftir að sex ára gamall einhverfur drengur gleymdist í rútu. Hann er nemandi í Klettaskóla, sem er sérskóli og var á Guluhlíð sem er frístundaheimili skólans. Í kjölfarið sóttu foreldrar hans um að hann fengi að fara á annað frístundaheimili. Þeirri beiðni var hafnað því samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar þurfa börn að sækja það frístundaheimili sem tilheyrir þeirra grunnskóla. Bryndís segir ástæðu til að endurskoða þessa reglu.

„Börnin í Klettaskóla búa víða á höfuðborgarsvæðinu og fyrir mörg þeirra myndi skipta miklu máli að vera á frístundaheimili í hverfinu sínu til að vera í tengslum við krakkana þar. En það er ekki möguleiki á meðan þessar reglur eru í gildi. Fyrir hverja eru þessar reglur settar? Ekki fyrir börnin, að mínu mati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert