„Viljum auka vöðvastyrk þjóðarlíkamans“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Orkujöfnun, ráðstöfun gistináttagjalds, urðunarskattur og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Þetta var á meðal þeirra spurninga sem fundargestir beindu til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í dag. 

Bjarni og Aldís höfðu bæði á orði að þrátt fyrir að oft hafi andað köldu í sambandi ríkis og sveitarfélaga væri þarft að bæta þessi samskipti.  

Bjarni fór í stuttu máli yfir stöðu ríkisfjármála áður en hann svaraði spurningum úr sal. Hann greindi frá því að staða ríkissjóðs væri nokkuð góð og áfram væri stefnt að því að „safna ekki skuldum í hagvexti“. Framundan væru væntingar um ágætishagvöxt, stýrivextir hefðu aldrei verið lægri en nú og þetta væri í takt við lága verðbólgu og ábyrga kjarasamninga. Undanfarið hafi ríki og heimili lagað skuldastöðu sína mikið. 

„Við viljum halda áfram að auka landsframleiðsluna. Við viljum geta keypt betri krabbameinslyf og borgað hærri laun. Við viljum auka vöðvastyrk þjóðarlíkamans,“ sagði Bjarni. 

Fjárfestingar í samgönguinnviðum hafa ekki verið miklar á síðustu árum. Núna væri stefnt að því að gera betur. Bjarni benti á að það gæti verið freistandi að taka út kostnaðarliði eins og fjárfestingu í vegakerfi þegar litið væri á bókhaldið og staðan væri þröng. Hins vegar gæti það komið í bakið á fólki síðar. Þess vegna væri nú unnið að átaki í uppbyggingu innviða í samgöngumálum. 

Í takti við stækkandi vinnumarkað hefði einnnig starfsmönnum hins opinbera fjölgað. Það væru tölur sem rýna þyrfti betur í, að sögn Bjarna. Í þessu samhengi benti hann á að stjórnsýslan öll væri að stórum hluta langt á eftir samtímanum í stafrænni þróun. Nú væri unnið að því að efla rafræn samskipti borgara og stjórnkerfis. 

„Alltof lítið gerst of lengi“

„Frumvarpið hreyfir við ástandinu og það hefur alltof lítið gerst of lengi í þessum málum,“ sagði Bjarni um frumvarp um urðunarskatt sem fyrirhugað er að verði lagt fram. Hann tók fram að við gerðum alltof mikið af því að urða sorp sem og því þyrfti að breyta. Aldís tók fram að samráðsleysi milli ríkis og sveitarfélaga væri í sorpmálum. Ekki væri unnið saman að þessum málum en það væru samt sveitarfélögin sem bæru ábyrgð á endurvinnslunni.

„Hvernig væri að láta þá borga sem búa til mestu mengunina?“ sagði Aldís og óskaði eftir því að sveitarfélögin gætu sjálf ráðstafað urðunarskattinum. „Við viljum minnka neyslu, auka endurvinnslu og hætta að urða en farvegirnir eru ekki til og samfélagið þarf og vill meira,“ sagði Aldís. 

Í umræðu um ráðstöfun gistináttagjaldsins kom fram skýr vilji sveitarfélaganna að gjaldinu yrði ráðstafað. Hvernig það yrði gert væri ekki enn ljóst. Aldís sagði að sveitarstjórnarstigið væri tilbúið að finna út úr þessi. Ýmis sjónarmið eru um ráðstöfun þess til að mynda hvort eitthvað rynni til þeirra sveitarfélaga sem byðu ekki upp á gistingu en engu að síður skapaðist álag í sveitarfélaginu vegna ferðamanna. Hugmyndir voru uppi um að framkvæmdastjóður ferðamannastaða kæmi að málum. 

Vill minna hamarshögg að ofan

Hvernig getur ríkið unnið að því að færa störf meira á landsbyggðina? Þetta var ein spurning úr sal. Bjarni benti á að með ljósleiðaravæðingu landsins hefði verið lagður góður grunnur að því. Mikilvægt væri að slíkar ákvarðanir um tilfærslu starfa kæmu frekar frá t.d. forstöðumönnum ríkisstofnanna sem væru í betri og meiri tengslum við starfsmenn og eðli starfanna sjalfra en frá ráðuneytinu sjálfu. „Þetta þarf að vera minna af hamarshöggi að ofan og meira í samvinnu með forstöðumönnum stofnanna,“ sagði Bjarni. 

Aldís fagnaði því en tók skýrt fram að taka þyrfti slíkar ákvarðanir og setja sér markmið um að flytja ákveðið mörg störf innan tiltekinna árafjölda. Í þessu samhengi benti hún á að „Stundum þarf að stiga harkaleg skref“ í þessa átt.  

Jöfnun orkukostnaðar brann einnig á fundargestum. Bjarni fullyrti að um milljarð króna þyrfti til viðbótar til að auka framlögin svo dreifkostnaður orku verði að fullu jafnaður. Stefnt væri að því innan ríkisstjórnarinnar og sagði hann ennfremur að lítill ágreiningur væri um mikilvægi þessa máls.  

Aldís Hafsteinsdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert