Endurbóka farþega með öðrum félögum

Aflýsingar gærdagsins munu hafa einhverja keðjuverkun í dag.
Aflýsingar gærdagsins munu hafa einhverja keðjuverkun í dag. mbl.is/Eggert

Meirihluti þeirra sem komust ekki leiðar sinnar með Icelandair í gær vegna veðurs komast í flug í dag. Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Það gekk ágætlega að greiða úr flækjunni en nú erum við að klára að koma öllum farþegum í ný flug. Meirihluti farþeganna fer í dag en aðrir fara í síðasta lagi á morgun.“

Röskun varð á flugsamgöngum í gær vegna veðurs. Icelanda­ir af­lýsti 14 brott­för­um síðdeg­is í gær og þurfti að finna 1.700 til 1.800 farþegum sín­um hót­elg­ist­ingu. Landgöngubrýr voru teknar úr notkun og þurftu margir farþega að bíða tímunum saman í vélum á jörðu niðri  vegna þess. 

„Þegar ég heyrði í þeim í Keflavík í morgun þá voru ellefu vélar farnar. Það getur verið að fleiri séu farnar núna. Það var allt á áætlun í morgun en þetta mun þó hafa einhverja keðjuverkun í dag svo það eru líkur á að það verði einhverjar seinkanir í dag,“ segir Ásdís. 

Tveimur flugferðum var bætt við dagskrá Icelandair í dag, einni til Boston klukkan 10.30 og annarri til Seattle seinnipartinn.

Losa vélarnar fyrir þá sem eru strand

Ásdís segir eina ástæðu þess að svo vel hafi gengið að koma fólki frá landinu sé að flugfélagið komi hluta farþeganna fyrir hjá öðrum flugfélögum. 

„Eitt af því sem við gerum þegar fólk er strandað á Íslandi er að reyna að losa vélarnar. Við reynum til dæmis að endurbóka tengifarþega sem eru að fljúga frá Evrópu til Bandaríkjanna þá með öðrum flugfélögum beint yfir hafið til að losa sæti hjá okkur svo við getum komið farþegunum sem eru strandaðir á Íslandi á áfangastað,“ segir Ásdís. 

Ágætlega gekk að finna farþegum sem strandaðir voru hérlendis í gær næturskjól. „Auðvitað var orðið mjög mikið bókað á höfuðborgarsvæðinu en eftir því sem ég best veit þá gekk það ágætlega.“

Ásdís segir farþega hafa sýnt biðlund. „Við þökkum farþegum þolinmæðina og höfum gert okkar besta til að leysa úr þessu miðað við aðstæður.“

Brottfarir frá Keflavíkurflugvelli virðast vera nokkurn veginn á áætlun. Sam­kvæmt vef Isa­via fór fyrsta vél í loftið klukkan 7:44 í morg­un.

Gul viðvörun er þó enn í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland og miðhálendið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert