Það gæti verið botn á líkkistu

Ingveldur segir vanta úrræði fyrir börn í neyslu og að …
Ingveldur segir vanta úrræði fyrir börn í neyslu og að ekki megi skilgreina þau með hegðunarvanda heldur séu þau með sjúkdóm sem þurfi að meðhöndla. mbl.is/Ásdís

Ingveldur Halla Kristjánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, er einstæð móðir en hún á tvo syni, Kristján sem er tvítugur og Hilmi, bráðum fimmtán ára. Kristján lenti snemma úti á braut fíkniefna en hefur nú verið edrú í tvö og hálft ár. Vegferðin í átt að betra lífi var löng og ströng, bæði fyrir Kristján og Ingveldi sem reyndi allt hvað hún gat til að beina syni sínum af þessari ógæfubraut.

Á bak við hvern einstakling með fíknisjúkdóm eru aðstandendur; mæður, feður, systkini, ömmur og afar, sem öll lifa í ótta á meðan ástvinurinn er í neyslu. Oft skortir úrræði fyrir börn sem lenda út af sporinu og vill Ingveldur segja sína sögu og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn fíkniefnafaraldrinum. Hún vill upplýsa foreldra ungmenna um fíkniefnahættuna og einnig segja frá kerfinu sem oft bregst, en afar fá úrræði eru í boði fyrir þessi veiku börn.

Afburðagreindur með ADHD

„Kristján var ofboðslega skemmtilegur og ljúfur krakki og mjög klár. Mjög fljótur til og ákveðinn. Hann var læs fjögurra ára og ellefu ára var hann búinn að lesa Hringadróttinssögu og aðrar þungar bækur. Við vorum með fullan bókaskáp sem hann las spjaldanna milli,“ segir hún.

Kristján var nokkuð baldinn í skóla og var sendur í greiningu átta ára gamall.

„Þá kom í ljós að hann væri með ADHD en líka að hann væri afburðagreindur,“ segir Ingveldur og segir hann ekki hafa verið erfiðan.

„Hann var í áttunda bekk þegar hann byrjaði í neyslu en ég fór fyrst að taka eftir því um vorið þegar hann var í níunda bekk. Þá fór hann í uppreisn og það fór að bera á hegðunarvandamálum,“ segir hún og nefnir að þau mæðginin hafi verið afar náin áður en neyslan hófst.

Fíkniefnapróf falskt öryggi

Neysla Kristjáns hófst í partíi þar sem voru eldri krakkar og þar neytti hann áfengis í fyrsta sinn. „Hann varð rosalega veikur en fannst þetta samt sem áður spennandi og var til í að prófa aftur,“ segir Ingveldur sem tekur fram að hann hafi ekki verið í slæmum félagsskap.

„Á þessum tíma frétti ég oft af einhverju sem hann var að gera en hafði engar beinar sannanir. Börn sem fara í neyslu ljúga sig út úr öllu mögulegu. Hann var ekkert endilega óheiðarlegur en það er svo mikill feluleikur sem fer í gang. Hann er svo rosalega klár að hann komst upp með það sem aðrir komast ekki upp með. Ég var alltaf að taka fíkniefnapróf en þau komu alltaf hrein út. Það er ekkert mál að svindla á fíkniefnaprófum. Ég myndi vilja segja við foreldra sem eru í þessum sporum að ef þau hafa grun um að börnin séu í einhverju og fíkniefnaprófin segja nei, eiga þau að treysta innsæi sínu. Þetta er falskt öryggi,“ segir hún.

Ingveldur segist hafa látið Kristján taka þvagprufur en hann hafi oft blekkt hana því hreint þvag hafi verið hægt að fá hjá vinum. „Það er ýmislegt gert til að svindla. Hann hafði stundum útvegað sér hreint þvag og einu sinni nappaði ég hann af því að þvagprufan var óeðlilega köld. Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir því; þvagið er auðvitað volgt þegar það kemur úr líkamanum. Hann geymdi það stundum bak við ofn eða nálægt hitakerfum til að halda því heitu,“ segir hún.

Barnið mitt var í hættu

Strax í níunda bekk var Kristján farinn að nota mun sterkari efni en áfengi. „Ég fann einu sinni dunk af kannabis í skáp. Ég hringdi strax í lögregluna og sagðist hafa fundið fíkniefni heima hjá mér. Kristján sagði að félagi sinn ætti þetta og ég er ekki að segja að ég hafi trúað því en þetta er orð á móti orði. Svo fékk ég oft fréttir héðan og þaðan um hans neyslu en fólk vildi alls ekki að það yrði rakið til þess. Ég sagði fólki að það ætti endilega að hringja í lögregluna ef það heyrði eitthvað slíkt og það voru tveir sem tilkynntu hann til lögreglu og hún kom heim og leitaði að fíkniefnum,“ segir hún sem segir hann oft hafa sloppið.

Ingveldur segir þetta hafi tekið á taugarnar svo um munaði.

„Ég var alltaf með brjálaðar áhyggjur. Ég upplifði að barnið mitt væri í hættu. Maður fer í eins konar „survival mode“ og fer að reyna að bjarga barninu sínu. Það er oft talað um að fólk þurfi að finna sinn botn, en það er ekki í boði þegar barnið þitt er í neyslu. Það er ekki boði að barnið finni einhvern botn því það gæti verið botn á líkkistu,“ segir Ingveldur sem segist stundum hafa haft áhyggjur af því að Kristján myndi hreinlega ekki lifa af.

Kristján átti það til að hverfa að heiman og reyndi þá Ingveldur að leita sér hjálpar.

„Það er ekki auðvelt að fá aðstoð í kerfinu. Ef hann var úti alla nóttina hringdi ég um morguninn í lögreglu og ég gerði það meðvitað. Því fleiri tilkynningar sem berast, því alvarlega hlýtur þetta að vera. Hann var stundum bara hjá vinum sínum og ekki alltaf í einhverjum grenjum. En þetta jókst eftir að hann lauk grunnskóla,“ segir hún.

„Ég hringdi líka oft í foreldrasímann hjá Foreldrahúsi. Hann er opinn allan sólarhringinn og þar er hægt að fá ráðleggingar um hvernig best sé að bregðast við aðstæðum sem koma upp. Það var hjálp í því,“ segir hún.

Því meira sem neyslan jókst því dýrari varð hún og var Kristján, eins og flestir í hans aðstöðu, farinn að selja fíkniefni, og það strax í grunnskóla.

„Hann sagði mér seinna að hann hefði verið með mun hærri tekjur en ég en sama hver veltan var þá var aldrei neinn gróði því það fór allt í fikniefni. Það kostar mikið að vera fíkniefnaneytandi. Hann var kominn í kókaín og bara allt, en hann var sem betur fer hræddur við sprautur og var því ekki farinn að sprauta sig,“ segir Ingveldur.

Skipti um lás

„Þegar hann átti fjóra mánuði í átján ára gat hann verið stjórnlaus í neyslu og neitað meðferð. Mér fannst svolítið eins og barnavernd væri að bíða eftir að hann yrði átján. Barnavernd segir bara: „þú ert forráðamaður hans, hann hefur lögheimili hjá þér og þér ber að veita honum húsaskjól“. Barnavernd útvegaði mér sálfræðing og ég fór að undirbúa það að vísa honum út af heimilinu þegar hann væri orðinn átján, en í raun mátti ég ekki gera það fyrr. Þá fékk ég það tæki í hendurnar að segja við Kristján: „ef þú ætlar að búa hér, verður þú að fara í meðferð“,“ segir hún og segist hafa sett honum stólinn fyrir dyrnar þegar hann varð átján.  

„Ég vísaði honum út af heimilinu og fór til kærastans míns uppi á Kjalarnesi til að reyna að gleyma áhyggjum um stund. Þegar ég kom heim daginn eftir hafði hann samt komið heim og þar hafði verið standandi partí, slagsmál um nóttina og allt í rúst. Nágrannarnir voru brjálaðir og lögreglan hafði komið. Heimilið var viðbjóður. En það var ekki einu sinni hringt í mig,“ segir hún.

„Þá skipti ég um lás. Ég sagði við hann að á meðan hann væri í neyslu gæti hann ekki búið heima. En hann væri velkominn að vera heima ef hann færi í meðferð og yrði edrú.“

Hvert fór hann?

„Á götuna, eða til vina. Þetta var bara hræðilegt. En þetta voru bara tveir sólarhringar. Þá hringdi hann í bróður minn sem fór með hann upp á bráðamóttöku og hann var lagður inn á fíknigeðdeild. En það er einmitt eitt sem gerist þegar hann varð átján, þá varð hann gjaldgengur á fíknigeðdeild. BUGL tekur ekki við börnum í neyslu. Samt hafði hann oft lent í því að vera í geðrofi í neyslu. Það er engin heilbrigðisþjónusta fyrir veikustu börnin í neyslu, þau sem fá geðrof,“ segir hún.

„Hann var svo þarna á fíknigeðdeildinni og fór þaðan á Vog og svo á Staðarfell,“ segir hún og hefur Kristján verið edrú síðan, í tvö og hálft ár.

Ekki bara unglingaveiki

Ingveldur segir fordóma vera til staðar í heilbrigðiskerfinu gagnvart fólki með fiknisjúkdóm en Kristján hefur fengið mun betri þjónustu þegar hann hefur mætt til lækna vegna augnanna en Kristján greindist með augnsjúkdóm fyrir um tveimur árum og er nú lögblindur. 

„Við höfum reynslu af því. Hann er með annan sjúkdóm og fékk miklu betri þjónustu, af því að þá er hann kominn með eitthvað líkamlegt,“ segir hún.

„Annað sem ég hefði viljað fá er fræðsla um fíknisjúkdóminn og hvernig hann virkar. Það var oft sagt að hann væri bara unglingur með hegðunarvanda. En hann var ekki stjórnlaus af því að hann væri unglingur heldur af því hann var að taka örvandi efni á hverjum degi. Einhvern tímann kom lögreglan og sagði: „já, unglingar eru svo skapstórir“. Þetta var ekki bara unglingaveiki. Fólkið í kerfinu þarf að vera betur upplýst. Auðvitað veit ég að neysla getur stundum verið vegna hegðunarvanda. Mér finnst það samt hættulegt viðhorf að líta á börn, sem eru orðin mjög líkamlega ánetjuð og komin í fráhvörf og jafnvel geðrof vegna neyslu, sem óþekk frekar en veik. Það er ekkert umbunarkerfi í heimahúsi að fara að laga þann vanda. Það er eins og að meðhöndla manneskju með heilaæxli með panódíl. Að mínu mati væri mikil framför að skilgreina neyslu sem heilbrigðisvanda fyrst og fremst,“ segir hún.  

Viðtalið við Ingveldi birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert