„Gefa grænt ljós á þjóðarmorð“

Lenya Rún Taha Karim er Kúrdi og Íslendingur. Hún leggur …
Lenya Rún Taha Karim er Kúrdi og Íslendingur. Hún leggur stund á lögfræði í Háskóla Íslands.

Lenya Rún Taha Karim, Íslendingur og Kúrdi, segir Kúrda vera í áfalli yfir því að Bandaríkin ætli að draga hersveitir sínar frá Sýrlandi. Hún telur að með því séu Bandaríkin að gefa Recep Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands, leyfi til þess að framkvæma þjóðarmorð á Kúrdum. 

Báðir foreldrar Lenyu eru frá írakska hluta Kúrdistan og bjó hún þar um nokkurra ára skeið. Lenya á fjölda vina og ættingja í Kúrdistan sem eru í áfalli yfir fréttunum.

„Það er bara svo ótrúlega erfitt að trúa því að Bandaríkin myndu gera okkur þetta eftir að við stóðum við bakið á þeim í ISIS baráttunni. Ég vil meina að ef það hefði ekki verið fyrir kúrdískar hersveitir þá hefðu Bandaríkin ekki getað sigrað ISIS. Við erum búin að missa yfir 11.000 hermenn, við erum ekki með tölu á því og nú eru þau að gefa grænt ljós á þjóðarmorð,“ segir Lenya. 

Kúrdistan er landsvæði sem í dag tilheyrir fjórum mismunandi þjóðríkjum: Tyrklandi, Sýrlandi, Írak og Íran. Á þessu landssvæði hafa Kúrdar verið í meirihluta íbúa og kúrdísk menning og tungumál hefur verið ríkjandi. 

„Ekki í fyrsta skipti“

Banda­rísk­ar her­sveit­ir hafa haf­ist handa við að flytja her­sveitir sínar frá norður­hluta Sýr­lands og landa­mær­um Tyrk­lands. Með því er leiðin greið fyr­ir Tyrki að ráðast gegn Kúr­d­um við landa­mær­in.

Kúr­d­ar voru helstu banda­menn Banda­ríkja­hers í stríðinu gegn Ríki íslams í Sýr­landi, en nú seg­ir Trump að þeir verði sjálf­ir að „finna út úr þessu“.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bandaríkin gera eitthvað svona, eins og til dæmis í Anfal. Það var þjóðarhreinsun sem Saddam Hussein stóð fyrir frá 1986-1989, þá var hann einfaldlega að hreinsa út Kúrda og Bandaríkin gáfu honum vopn til þess að standa í þeim aðgerðum á meðan þau voru samt í bandalagi við Kúrda.“

Ung stúlka veifar fána Kúrdistan í mótmælum sýrlenskra Kúrda gegn …
Ung stúlka veifar fána Kúrdistan í mótmælum sýrlenskra Kúrda gegn fyrirhuguðum hernaðaraðgerðum Tyrkja. AFP

Sparkað í liggjandi Kúrda

Fréttirnar koma Kúrdum þó ekki í opna skjöldu, að sögn Lenyu.

„Mamma mín var lifandi þegar á þjóðarhreinsuninni stóð og þetta kom henni þannig séð eiginlega ekkert á óvart. Hún andvarpaði og sagði bara: „Hefur þetta ekki alltaf verið svona.“ Kúrdar hafa verið svo mikil grey í gegnum tíðina. Það er alltaf sparkað í okkur á meðan við liggjum niðri en samt komum við aftur.“

Lenya segir að viðbrögð Kúrda við aðgerðum Bandaríkjanna nú séu frábrugðin viðbrögðum Kúrda við Anfal þjóðarmorðinu. Þá hafi þjóðin lítið sem ekkert sagt en í dag standi Kúrdar upp fyrir sjálfum sér.

„Við höfum mjög hátt um þetta. Við erum að láta allan heiminn vita að við séum að ganga í gegnum þetta í þetta skiptið.“

Lenya telur að það sé vegna þess að annað sé ekki í boði ætli þjóðin sér að lifa af.

„Með allt sem hefur gerst með Erdogan, forseta Tyrklands, þá vitum við alveg hvað er á döfinni. Hann er að fara að reyna að hreinsa út allan sýrlenska partinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rojava, kúrdísk-sýrlenski parturinn, er að ganga í gegnum eitthvað svoleiðis. Það var þjóðernishreinsun þar á vegum ISIS árið 2015 eða 16. Íbúar Rojava hafa gengið í gegnum ótrúlega mikið. Það er ekkert sem við getum gert, það er heldur ekkert sem ríkisstjórnin okkar getur gert í Kúrdistan nema að hafa hátt um þetta.“

Erdogan Tyrklandsforseti.
Erdogan Tyrklandsforseti. AFP

Segir Erdogan með „mikilmennskubrjálæði“

Erdoğan hefur sagt að fyrirhugaðar hernaðaraðgerðir Tyrkja í Sýrlandi séu til þess fallnar að skapa friðarsvæði fyrir flóttafólk. Lenya hefur litla trú á að það sé satt. 

„Við höfum alveg haft reynslu af Erdogan. Hann var líka forseti í Tyrklandi þegar ég bjó þarna þetta er bara eitthvað sem Erdogan gerir, þetta er eitthvað sem forsetar með mikilmennskubrjálæði gera, setja fram gervimarkmið.“

Lenya hefur sömuleiðis litla trú á að íslensk stjórnvöld bregðist við aðstæðunum með einhverjum hætti. Hún segir að Íslendingar geti þó lagt sitt af mörkum. 

„Það eina sem að Íslendingar geta gert er að lesa sér til um aðstæðurnar, skapa umræðu og vekja umræðu, til dæmis á samfélagsmiðlum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert