Vilja afglæpavæða neyslu vímuefna

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bann við vörslu, kaupum og móttöku ávana- og fíkniefna verður fellt á brott verði frumvarp níu þingmanna Pírata, Samfylkingarinnar, VG, Viðreisnar og Flokks fólksins að lögum. Halldóra Mogensen Pírati er fyrsti flutningsmaður en frumvarpið var lagt fram í gær.

Innflutningur, útflutningur, sala, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efna verður áfram bannaður. Hið sama gildir um vörslu efna þegar magn þeirra er umfram það sem talist getur til eigin nota.

Fram kemur í greinargerð að með frumvarpinu sé lagt til að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott.

Með því er öll sú háttsemi sem neytendur vímuefna kunna að viðhafa felld brott úr lögunum og refsileysi neytenda vímuefna þannig tryggt. Samþykkt frumvarpsins felur í sér stórt skref í átt að afglæpavæðingu neyslu vímuefna,“ kemur enn fremur fram í greinagerðinni.

Bent er á að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi lagt fram frumvarp um neyslurými á síðasta þingi. 

Í greinargerð núverandi frumvarps kemur fram að í velferðarnefnd hafi komið fram gagnrýni þess efnis að lögreglu yrði áfram skylt að handleggja ólögleg ávana- og fíkniefni og gera þau upptæk.

Þar segir enn fremur að í ljósi þess að velferðarnefnd hafi þegar lýst yfir mikilvægi þess að vinna markvisst að afnámi refsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum sé það rétt að löggjafinn hafi frumkvæði að setningu laga til að bregðast við því ástandi sem hamlaði framgangi frumvarps ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert