„Af hverju þarf að mismuna fólki svona“

Guðmundur Ingi Kristinsson vil hlið Ingu Sæland.
Guðmundur Ingi Kristinsson vil hlið Ingu Sæland. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú munar 70.000 krónum á mánuði á lágmarkslaunum og lífeyri. Eftir næstu launahækkanir stefnir í að munurinn fari upp í 86.000 krónur á mánuði,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, á þingi. Hann vísaði í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins um kjör öryrkja og sagði að gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna væri enn að aukast.

Guðmundur sagðist hreinlega ekki átta sig á því hvernig ríkisstjórnin gæti reiknað það út að öryrkjar þyrftu þetta miklu minna til framfærslu en láglaunafólk.

Er það eitthvað í fari öryrkja sem gerir að verkum að þeir eigi að fá þetta miklu lægri framfærslu? Er það vegna þess að þeir þurfa að borða minna, þurfa að fá færri lyf eða ódýrari? Hvað veldur því að kerfið er sett upp eins og öryrkjar þurfi mun minna til framfærslu en láglaunafólk?

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hristi hausinn yfir svörum ráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði að þegar bætur almannatrygginga væru til umræðu yrði að hafa í huga að þær séu alla jafna bundnar við vísitölu þannig að þær breytast.

Þó að þingmaðurinn hristi hausinn er það þannig að í fjárlögum hvert ár gerum við ráð fyrir því að stofninn þar hækki á þeim grunni,“ sagði Ásmundur en Guðmundur var ekki ánægður með svar ráðherra.

Ásmundur segir að stjórnvöld hafi bætt í fjármagni sem meðal annars var ætlað til að draga úr krónu á móti krónu skerðingum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir 1,1 milljarði til að bæta stöðu þessa hóps. 

„Þegar það allt saman er tekið tel ég að með því séum við að bæta kjör þessa hóps og ég vona að þingmaðurinn sé sammála mér um að margt af því séu jákvæðar aðgerðir,“ sagði ráðherra.

„Ég held að hangið sé á prósentuhækkunum og verðlagsbreytingum á miklu sterkari og stærri hækjum en ég er með,“ sagði Guðmundur Ingi. Hann sagði að ríkisstjórnin gæti breytt þessu ef viljinn væri fyrir hendi.

Guðmundur Ingi sagði það óskiljanlegt að öryrkjar eigi að lifa á 70-80 þúsund krónum minna á mánuði en lægstu laun eru. „Hvers vegna? Hvað er það í fari þeirra sem gerir það að verkum að þeir eigi að lifa af þessu? Ég vil fá svar við því: Af hverju í ósköpunum þarf að mismuna fólki svona?

Ásmundur sagði að áhersla hefði verið lögð á breytingar sem miða að því að breyta endurhæfingarkerfinu vegna þess að það þurfi að draga úr nýgengi örorku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert