Raunveruleg hætta á uppgangi ISIS

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Kúrdar hafa verið í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn ISIS. Við sjáum það nú að það er raunveruleg hætta á að þessum samtökum vaxi aftur ásmegin.“ Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, spurður út í þá stöðu sem komin er upp í norðurhluta Sýrlands eftir að hersveitir Tyrkja réðust inn á landsvæði Kúrda. Guðlaugur segist hafa lýst þeirri skoðun sinni að ákvörðun Bandaríkjaforseta um að kalla herlið frá svæðinu, hafi verið misráðin.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna ákváðu á fundi í morgun að fordæma innrás Tyrkja og auk þess að ríkin myndu öll hætta vopnasölu til Tyrkja, sem þó er aðildarríki NATO rétt eins og 22 af 28 ríkjum Evrópusambandsins.

Spurður hvort einhverra frekari aðgerða sé að vænta frá íslenskum stjórnvöldum, segir Guðlaugur of snemmt að segja til um það. „Á þessu stigi erum við, ásamt þeim þjóðum sem við erum í mestum samskiptum við að beita Tyrki pólitískum þrýstingi. Vonandi ber það árangur.“ Íslendingar séu hins vegar ekki í aðstöðu til að beita Tyrki þrýstingi ein og sér.

Sveitir Kúrda hafa nú snúist á sveif með Assad Sýrlandsforseta og bandamönnum hans, Rússum. Hafa erlendir miðlar velt því upp hvort Tyrkir kunni að beita fimmtu grein stofnsáttmála NATO, sem kveður á um að árás á eitt ríki teljist árás á þau öll.

Guðlaugur blæs á þær áhyggjur. „Það eru Tyrkir sem ráðast inn [á svæði Kúrda]. Ekki eitt einasta ríki hefur lýst yfir stuðningi við þessar aðgerðir,“ segir Guðlaugur. Fimmta greinin eigi því ekki við. Ekki sé heldur fordæmalaust að aðildarríki NATO eigi í hernaðaraðgerðum ein og sér, segir Guðlaugur og nefnir sem dæmi Falklandseyjastríð Breta, Víetnamstríð Bandaríkjamanna og stríðsrekstur Tyrkja á Kýpur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert