„Hugur fylgir máli í þessu vantrausti“

Fáir mættu á starfsmannafund Reykjalundar í hádeginu í dag.
Fáir mættu á starfsmannafund Reykjalundar í hádeginu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„SÍBS eru sjúklingasamtök sem fara með tvo milljarða á ári. Það er ekkert fagfólk í stjórn. Það getur á einni nóttu umbylt 75 ára starfi, sem hefur verið helgað veiku fólki, og breytt því eftir eigin geðþótta. Það er hræðilegt að heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lengur lagalega heimild til eins eða neins,“ segir Magdalena Ásgeirsdóttir læknir á Reykjalundi um stjórn SÍBS sem rekur Reykjalund.  

Fram til ársins 2008 var í gildi opinber reglugerð um Reykjalund. Í henni gátu meðal annars stjórnvöld skipað einstakling í stjórn. „Einmitt til að koma í veg fyrir að svona atburðir gætu gerst,“ útskýrir Magdalena. Þáverandi heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson felldi úr gildi reglugerð um Reykjalund sem hafði verið til frá 1945, að sögn Magdalenu.

„Við höfum verið heppin með stjórnendur fram að þessu. Við höfum verið háð því að hafa gott fólk í stjórn SÍBS en þetta hefur yfirvofandi,“ segir Magdalena. Hún segir mikla sorg ríkja á vinnustaðnum í ljósi uppsagnar Magnúsar Ólafssonar, framkvæmdastjóra lækninga, og starfsloka við fyrrverandi forstjóra Reykjalundar.

Hún furðar sig á að stjórn SÍBS skuli enn starfa en í síðustu viku lýstu rúmlega 100 manns, starfsfólk Reykjalundar, yfir vantrausti á stjórnina. Sama dag var haldinn starfsmannafundur þar sem formaður SÍBS og þá settur forstjóri Reykjalundar ítrekaði skyldur starfsfólks gagnvart sjúklingum sínum. Sama dag veitti starfsfólk sjúklingum ekki þjónustu. Þetta var daginn eftir að Magnúsi var sagt upp störfum. 

Örfáir mættu á starfsmannafundinn sem var haldinn í dag þar sem greint var frá því að Ólafur Þór Ævarsson væri nýráðinn framkvæmdastjóri lækningar og Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingar, starfaði sem forstjóri Reykjalundar þar til nýr verður ráðinn. „Þegar fólk lýsir vantrausti kemur það ekki hlaupandi eftir einn fingursmell. Það sýnir sig best að hugur fylgir máli í þessu vantrausti,“ segir Magdalena um starfsmannafundinn. 

„Við óttumst fyrst og fremst að þessi mannauður, sem hefur helgað lífi sínu þennan stað og hefur metnað í starfi, að faglegu vinnubrögð okkar verði ekki lengur viðhöfð. Við óttumst að á einni nóttu verði teknar ákvarðanir þar sem okkar þekking nýtist ekki sem best og komi niður á skjólstæðingum okkar,“ segir hún og bætir við „ég legg áherslu á að við munum halda áfram að sinna okkar skjólstæðingum af fagmennsku og alúð en engu að síður unum við ekki við ástandið.“

Spurð hvort hún hyggist segja upp segist hún ekki geta unnið undir stjórn fólks sem ræður sig á þessum forsendum. Það sé alveg ljóst. Hún er að ráða ráðum sínum. 

Óánægja starfsfólks með stjórn SÍBS má einnig rekja til nýs skipurits Reykjalundar sem var samþykkt fyrir skömmu. Í því fólst meðal annars að ný staða var búin til, framkvæmdastjóri endurhæfingar, og sú staða var auglýst í sumar. Herdís var ráðin í þá stöðu eins og fram hefur komið. 

„Starfsmönnum, yfirlæknum og forstöðumönnum starfshópa voru kynnt drög að nýju skipuritu til umfjöllunar. Þetta var í lok júní. Engum datt í hug að þessu yrði umbylt og að ráðið yrði í stöðu út frá væntanlegu skipurit á miðju sumarleyfistíma. Því mótmæltu þeir sem það gátu. Læknaráð var búið að gera athugasemdir líka og þær athugasemdir voru sendar formanni stjórnar SÍBS og framkvæmdastjórnar Reykjalundar. Einu viðbrögðin við því var að forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga voru reknir,“ segir Magdalena. 

Helst voru gerðar athugasemdir við að hvorki var til hlutverkalýsing né starfslýsing á framkvæmdastjóra endurhæfingar. Auk þess stönguðust drögin á við gildandi lög um heilbrigðisþjónustu, að sögn Magdalenu. 

Drögin voru samþykkt af stjórn SÍBS. Starfsfólki var ekki tilkynnt um þær breytingar formlega fyrr en 1. október þegar búið að er reka forstjórann, segir Magdalena.  

Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir á Reykjalundi.
Magdalena Ásgeirsdóttir, læknir á Reykjalundi. ljósmynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert