„Ábyrgð samningsaðila við gerð kjarasamninga er mikil“

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hanna

„Svigrúm til óábyrgra kjarasamninga er minna en áður. Launin duga betur en nokkru sinni og almenn velmegun og jöfnuður hefur aldrei verið meiri,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í ávarpi sínu á ársfundi samtakanna sem hófst nú klukkan tvö.

Fundurinn er haldinn í fyrsta sinn að hausti til og tilefnið er að tveir áratugir eru frá stofnun Samtaka atvinnulífsins.

Eyjólfur sagði að gegnum tíðina hefði oft verið tekist á við gerð samninga um kaup og kjör almennings, það væri eðlilegt enda miklir hagsmunir undir. Um nokkurra ára skeið hefði verið samhljómur í stjórn SA og meðal stjórnenda í atvinnulífinu um að stefna samtakanna byggi á að saman færi góð afkoma í atvinnulífinu og hagsæld almennings.

„Ólík sjónarmið, heilbrigt samtal og gagnkvæmur skilningur leiða af sér niðurstöðu þar sem enginn einn fær ráðið öllu né nær öllu sínu fram. Um málamiðlun þarf að skapast sátt allra aðila og sannfæring fyrir því að innistæða fyrir nýjum samningum sé til staðar,“ sagði hann og bætti við:

„Ábyrgð samningsaðila við gerð kjarasamninga er mikil, og þó ekki væri nema vegna þess þá gegna Samtök atvinnulífsins og launafólks mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Samskipti okkar við verkalýðshreyfinguna byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu fyrir sjónarmiðum hvers annars. Niðurstöður kjarasamninga ráða miklu um almenna efnahagsþróun og ef ekki er að gætt geta kjarasamningar leitt til verðbólgu, gengisfellinga og óviðunandi afkomu fyrirtækja og þar með verri lífskjara almennings.“

Hann sagði að betur hefði tekist til í þessum málum almennt séð frá þjóðarsáttinni árið 1990 en að svigrúm til óábyrgra kjarasamninga væri minna en áður, launin dugi betur en nokkru sinni fyrr og velmegun og jöfnuður hafi aldrei verið meiri. Það sé meðal annars vegna þess að samningsaðilar hafi síðasta áratug lagt áherslu á að hækka lægstu laun og tryggja að fyrirtæki geti staðið undir þeim hækkunum.

„Nú síðast tryggir Lífskjarasamningurinn frá síðasta voru áframhaldandi stuðning við þessi markmið allt til loka árs 2022. Hann tekur mið af hagsmunum launafólks og fyrirtækja. Hluti launahækkana næstu ára eru tengdar beint við ganginn í hagkerfinu. Þetta eru tímamót og risastórt skref í rétta átt, að aukin umsvif í þjóðfélaginu leiði beint til hærri launa.“

Hann sagði að meginmarkmið Lífskjarasamningsins hefði þegar náðst – einungis hálfu ári eftir undirritun og að lægri vextir, stöðugt gengi og lækkun skatta gefi fyrirtækjum svigrúm til aukinnar nýsköpunar, markaðssóknar og fjárfestingar. „Samningarnir leggja grunn að stöðugleika í efnahagslífinu, aukinni framleiðni og batnandi lífskjörum almennings.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert