Mikilvægt að taka tvö skref fram á við

AFP

Vera Íslands á gráum lista yfir ríki, sem þykja ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, felur í sér hættu á að glæpamenn gætu litið á það sem ástæðu til þess að auka umsvif sín í landinu.

Þetta segir dr. Justin Bercich, sérfræðingur hjá íslenska fyrirtækinu Lucinity, í samtali við mbl.is, en FATF, alþjóðlegur starfshópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ákvað fyrr í dag að setja Ísland á umræddan lista. Þá segir hann að Ísland hafi alla burði til þess að verða leiðandi í baráttunni gegn peningaþvætti.

Vera á gráa listanum þykir að sögn Bercich vera vísbending um að stofnanir hér á landi, regluverk og kerfi standi höllum fæti gagnvart peningaþvætti. Það þýði ekki endilega að sú sé raunin en málið snúist um það orðspor sem fari af landinu.

„Fari glæpamenn að líta svo á að orðspor Íslands varðandi varnir gegn peningaþvætti sé slæmt þá gætu þeir leitast við að auka umsvif sín í landinu,“ segir Bercich. Þannig skipti ekki síður máli hvernig málið sér við glæpamönnum.

Gæti bitnað á viðskiptasamböndum

Hins vegar sé ólíklegt að vera Íslands á listanum hafi bein áhrif á íslenskt efnahagslíf til skemmri tíma litið. Áhættan felist í mögulegum óbeinum áhrifum. Þannig gætu alþjóðleg fyrirtæki farið að líta svo á að áhætta fylgi viðskiptum við landið.

Þannig gæti orðið erfiðara að koma á nýjum viðskiptasamböndum sem þyrftu þá að komast yfir þessa hindrun. Ekki síst á milli Íslands og Evrópusambandsins þar sem sambandið og ríki þess horfi mjög til ráðlegginga FATF.

Dr. Justin Bercich.
Dr. Justin Bercich. Ljósmynd/Aðsend

Varðandi viðskiptasambönd sem þegar eru fyrir hendi er líklegt að spurningar vakni vegna veru Íslands á listanum. Erlend fyrirtæki muni fyrir vikið líta svo á að þau séu að eiga í viðskiptum við svæði þar sem meiri áhætta er fyrir hendi en áður.

Þetta geti smám saman hafi áhrif á efnahagslífið eftir því sem fram líði stundir. Fyrir vikið sé mjög mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld að leggja allt kapp á að lagfæra það sem þurfi að laga svo Ísland geti sagt skilið við gráa listann sem fyrst.

Mikilvægt sé að hafa í huga í þessu sambandi að listar sem þessi eru teknir inn í myndina þegar bankar og stórfyrirtæki leggja mat á þá áhættu sem fylgi fjárfestingum í einstökum ríkjum. Hugsanlegt sé að til lengri tíma geti það haft áhrif á verðlag.

Gæti leitt baráttuna gegn peningaþvætti

„Ísland er mjög þróað hagkerfi og hefur alla burði til þess að verða leiðandi á heimsvísu í baráttunni gegn peningaþvætti,“ segir Bercich. Þannig standi íslenskir bankar frekar sterkum fótum, bankakerfið sé gott sem og regluverkið.

Ýmis ríki búi við áhættu úr mörgum áttum. Ísland sé hins vegar í þeirri stöðu að búa að sterkum og stöðugum viðskiptatengslum við ólík ríki og sá möguleiki sé sannarlega fyrir hendi að koma á fót eldveggi í kringum landið gegn peningaþvætti.

Fyrir þróað hagkerfi eins og Ísland sem sett hafi verið á gráa listann er að mati Bercich ekki nóg að gera það sem þurfi til þess að koma Íslandi af listanum heldur þurfi landið að bregðast við á þann hátt að það taki forystu í þessum málum.

Þannig hafi Ísland tekið eitt skref aftur á bak og þurfi núna að taka tvö skref fram á við. Eitt skref fram á við til þess að komast af gráa listanum og síðan annað þangað sem hagkerfið eigi heima og til þess að dragast ekki aftur úr öðrum hagkerfum.

„Ég held að Ísland ætti ekki að líta á þetta sem blett á orðspori landsins. Hins vegar gæti þetta verið hvatning til þess að setja á laggirnar kerfi og hrinda því í framkvæmd sem gæti gert það að leiðandi ríki í baráttunni gegn peningaþvætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert