Talið að áhrifin verði óveruleg

Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki …
Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar. AFP

„Stjórnvöld hafa ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif af því að Ísland lendi á listanum. Það er samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg og er hvorki talið að niðurstaða FATF hafi bein áhrif á almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum vegna ákvörðunar FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, á fundi hópsins í dag um að setja Ísland á svokallaðan gráan lista yfir ríki sem þykja ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þar segir enn fremur að íslensk stjórnvöld hafi mótmælt tillögu um að setja Ísland á listann þar sem þau telji niðurstöðuna á engan hátt endurspegla stöðu landsins í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sú afstaða hafi mætt skilningi meðal nokkurs fjölda aðildarríkja.

mbl.is/Hjörtur


„Niðurstaðan byggist á stöðuskýrslu sérfræðingahóps FATF sem lá fyrir 24. september sl. Á fundinum var horft til vilja íslenskra stjórnvalda til að vinna áfram að úrbótum. Þá var viðurkennt að Ísland hafi gripið til aðgerða til að mæta kröfum FATF en ekki hafi gefist tími til að yfirfara þær áður en ákvörðun var tekin,“ segir áfram.

Þrennt sé einkum talið standa úr af. Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur, upplýsingakerfi og starfsmannafjöldi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og eftirlit með eftirfylgni við þvingunaraðgerðir og yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga.

„Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar. Vænta íslensk stjórnvöld þess að FATF nýti fyrsta tækifæri til að endurskoða mat á stöðu Íslands,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert