„Fálkanum er að fatast flugið“

Logi segir Samfylkinguna verða að bjóða upp á skýra og …
Logi segir Samfylkinguna verða að bjóða upp á skýra og trúverðuga stefnu sem mæti áskorunum samtímans, og er viss um að þá fái flokkurinn umboð til þess að leiða saman umbótaöfl í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. mbl.is/​Hari

Upp er komin ný og gjörbreytt staða í stjórnmálum á Íslandi sem felur í sér sögulegt tækifæri til breytinga, til að fylkja saman umbótaöflum og sýna að til er betri valkostur fyrir almenning.

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni á flokksþingi í dag.

Hann segir Samfylkinguna verða að bjóða upp á skýra og trúverðuga stefnu sem mæti áskorunum samtímans,  og er viss um að þá fái flokkurinn umboð til þess að leiða saman umbótaöfl í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

„Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi: Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum á 20. öldinni gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni. Hann er klofinn — þvers og kruss. Frjálslyndi vængurinn brotnaði í Viðreisn og fjaðrir úr þeim íhaldssama reitast nú til Miðflokksins. Fálkanum er að fatast flugið og hann er ósköp ráðvilltur. Þetta eru stór tíðindi og aðrir flokkar þurfa að bregðast við,“ sagði Logi og skaut um leið á Vinstri græn og sagðist vona að þau heyrðu þetta og skildu.

Hætt að snúast um hvaða félagshyggjuflokkur hlaupist undan merkjum 

„Nú er runninn upp sá tími  að íslensk stjórnmál hætti að snúast um hvaða félagshyggjuflokkur það er hverju sinni sem hleypst undan merkjum og skríði upp í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.“

Logi hélt áfram að rifja upp söguna og sagði að það eina sem hefði þurft til að hnekkja á áratugalöngum völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni hafi verið samstaða umbótaaflanna. Reykjavíkurlistinn hafi verið myndaður af mörgum ólíkum flokkum fyrir 25 árum og unnið allar kosningar þrjú kjörtímabil í röð.

mbl.is/​Hari

„Enn erum við að vinna sigra í Reykjavík, og leiða mikilvægar breytingar. Hér höfum við sýnt og sannað að það er hægt að vinna og það er hægt að vinna saman, í samstarfi við aðra flokka, við höfum fordæmið og þurfum að gera nákvæmlega þetta í landsstjórninni líka. Að sameina umbótaaöflin og leiða ríkisstjórn sem er fær um að takast á við framtíðina, ráðast í nauðsynlegar breytingar og gera betur fyrir fólkið í landinu.“

Sagði Logi liggja í augum uppi að næsta stóra verkefni Samfylkingarinnar væri að fella ríkisstjórnina í kosningum 2021.

„Stórar áskoranir bíða okkar , loftslagsmálin, kjaramálin, menntamálin — og við getum tekið á þeim með festu án þess að það bitni á þeim sem síst mega við því. Við þurfum að koma hugsjónum okkar um frelsi, jafnrétti, framsýni og samvinnu í framkvæmd. Og við getum gert það. Við erum að vaxa, eflast og ávinna okkur aukið traust fólks um land allt. Við verðum að halda áfram á þessari braut  og við sem erum saman komin hér í dag, hvert og eitt okkar - getum haft mikil áhrif á gang mála.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert