Líst vel á niðurgreiðslu innanlandsflugs

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra og nýjum varaformanni Vinstri grænna, líst vel á hugmyndir um innleiðingu skosku leiðarinnar svokölluðu; niðurgreiðslu innanlandsflugs til íbúa dreifðri byggða að skoskri fyrirmynd.

Tillaga um stuðning við þá hugmynd liggur fyrir landsfundi Vinstri grænna, sem nú stendur yfir, og viðbúið að greidd verði atkvæði um hana í kvöld eða á morgun.

Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra og formanni Framsóknarflokksins, er tíðrætt um skosku leiðina en hún var eitt af loforðum flokksins í kosningunum 2017. Ný samgönguáætlun áranna 2020-34 liggur nú fyrir þinginu, en í henni er meðal annars að finna nýja flugstefnu fyrir Ísland, þar sem lauslega er vikið að niðurgreiðslu á tilteknum leiðum innanlandsflugs, milli Keflavíkur, Egilsstaða Akureyrar og Reykjavíkur og verði þeir eitt „flugvallakerfi“ frá árinu 2024, sem reyndar er tveimur árum áður en stefnt er að því að síðastnefndi völlurinn verði lagður niður.

Guðmundur segir mikilvægt að horfa á samgöngumálin heildstætt. „Það er mjög mikilvægt að halda úti samgöngum milli staða.“ Aðspurður segir hann að mat á umhverfisáhrifum tillögunnar, sem vitanlega hvetur fólk til að fljúga meira, liggi ekki fyrir, en stjórnvöld stefna að kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 og ljóst að aukin umferð er ekki liður í því.

„Almennt séð þurfum við held ég að líta til þess hve mikil losun er frá mismunandi ferðamátum, hvort sem það er flug eða bíll,“ segir Guðmundur, en ljóst að slíkur samanburður veltur á því hve margir eru um borð og eins hve langt er flogið, en flugvélar menga mest í flugtaki og losa styttri ferðalög því hlutfallslega meira en þau lengri. Guðmundur segist eiga von á að niðurstöður slíkrar athugunar liggi fyrir áður en tekin verður ákvörðun.

Þá segir hann mikilvægt að stefna að því að gera innanlandsflug umhverfisvænna en nú er, og horfir til að mynda til Noregs í þeim efnum. Þótt rafflugvélar séu ekki á næsta leiti gætu einhvers konar blendingsflugvélar orðið raunhæfur valkostur fyrr en síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert