Lögregluþjónn sá við fótfráum ökuníðingi

Þremenningarnir komu fljótt auga á bílinn og eftir stutta eftirför …
Þremenningarnir komu fljótt auga á bílinn og eftir stutta eftirför stöðvaði ökumaðurinn bílinn neðarlega í Seljahverfi. Mynd úr safni. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson

Lögregluþjónar deyja sjaldnast ráðalausir, en það sýnir saga frá vormánuðum einhvern tímann á síðustu öld sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu deilir með fylgjendum sínum á Facebook.

Segir þar frá þremur vöskum lögreglumönnum sem staddir voru við eftirlit í Breiðholti þegar tilkynnt var um ölvaðan ökumann sem nálgaðist hverfið. Þremenningarnir komu fljótt auga á bílinn og eftir stutta eftirför stöðvaði ökumaðurinn bílinn neðarlega í Seljahverfi.

Hann vissi greinilega upp á sig sökina og og tók á rás upp Breiðholtsbrautina með tvo lögreglumenn á hælunum á meðan sá þriðji beið við bílinn til að hafa auga með farþegum hans.

Annar lögregluþjónanna var ekki sérlega „hlaupalega vaxinn“, eins og segir í frásögn lögreglunnar, og dróst fljótlega aftur úr. Hinn var nokkuð sprettharður, en þó ekki jafn frár á fæti og ökumaðurinn og þegar kom að bensínstöðina á mótum Norðurfells og Suðurfells leit út fyrir að hann hefði gengið honum úr greipum.

Svo reyndist hins vegar alls ekki vera, enda hafði seinfæri en úrræðagóði lögregluþjónninn veifað leigubíl á leið upp Breiðholtsbrautina og látið hann skutla sér upp að bensínstöðinni, þar sem hann hafði hendur í hári örmagnaðs ökuníðingsins.

Þessi saga sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að lögreglumenn deyja sjaldnast ráðalausir og virðast ávallt eiga ráð undir rifi hverju. Þetta sýnir líka að oft vinnur vitið meira en krafturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert