Hlýtt í dag en vetrarleg vika fram undan

Ekki er seinna vænna að taka upp vetrarúlpuna.
Ekki er seinna vænna að taka upp vetrarúlpuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dýpkandi lægð á Grænlandshafi, með tilheyrandi úrkomusvæði, nálgast landið óðfluga og fer því að rigna undir hádegi í dag, fyrst vestan til og sums staðar jafnvel slydda síðdegis á Norður- og Austurlandi. Þó er fremur hlýtt í veðri miðað við árstíma.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Í fyrramálið fer lægðin síðan austnorðaustur yfir landið og snýst í kjölfarið í norðanátt og kólnar talsvert. Úrkoma fer þá yfir í slyddu og síðar snjókomu norðanlands, en léttir smám saman til syðra. Því má búast við hríðarveðri á Vestfjörðum, Ströndum og öllu Norðurlandi á morgun og seinna einnig fyrir austan. 

Vegfarendur í fyrrnefndum landshlutum eru hvattir til að kynna sér vel veðurspár og færð áður en lagt er í hann og aka eftir aðstæðum. Síðdegis á morgun hvessir mikið undir Vatnajökli og austur á Firði, en þá geta vindhviður þar farið að valda ökumönnum vandræðum.

Segja má að vikan öll verði frekar vetrarleg enda ríkir köld norðanáttin á landinu með sínu éljalofti fyrir norðan og jafnvel víðar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðaustanátt, yfirleitt 10-15 m/s. Él um landið N-vert, annars bjart með köflum, en líkur á éljum allra syðst. Frost 0 til 8 stig, en um frostmark við suðurströndina.

Á fimmtudag:
Stíf norðanátt og snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt og bjart sunnan til á landinu. Frost 0 til 7 stig, en um frostmark við sjávarsíðuna.

Á föstudag:
Minnkandi norðanátt. Léttir til í flestum landshlutum og kólnar í veðri.

Á laugardag (fyrsta vetrardag):
Útlit fyrir hæga vinda og bjartviðri í flestum landshlutum, en áfram kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert