Ók ölvaður á ljósastaur

Tilkynnt var um umferðaróhapp í Þverholti í Mosfellsbæ snemma á þriðja tímanum í nótt. Ekið hafði verið á ljósastaur og er ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur.

Hann mun sjálfur hafa tilkynnt óhappið og var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir fannsókn málsins, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Alls voru afskipti höfð af 12 ökumönnum í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja.

Þá var bifreið stöðvuð í Ártúnsbrekku á sjötta tímanum í gærkvöldi, en ökumaður hafði mælst á 129 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 80. Á Reykjanesbraut í Kópavogi var bifreið stöðvuð á fyrsta tímanum í nótt. Sá ökumaður er grunaður um að hafa ekið á 138 km hraða á klukkustund, en hámarkshraði er 80.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert