Ýmis leyfi verði lögð af

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leggja á niður svokallað iðnaðarleyfi, leyfi til sölu notaðra bifreiða og afnema skráningarskyldu verslana og verslunarrekstur. Þetta er meðal tillagna sem fram koma í aðgerðaáætlun um einföldun regluverks sem kynnt verður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á morgun, mánudag.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra skrifar grein í sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem helstu aðgerðir þessa fyrsta hluta af þremur eru tíundaðar, en þar bendir hún á að samkvæmt gögnum frá OECD sé reglubyrði atvinnustarfsemi á Íslandi með því mesta sem þekkist innan OECD-landanna.

Að sögn Þórdísar er iðnaðarleyfi ekki talið hafa neina þýðingu, og verður því fellt út. Þá sé skráningarskylda verslana og verslunarreksturs samkvæmt lögum um verslunaratvinnu tvíverknaður gagnvart fyrirtækjaskrá, sem þegar skráir starfsemi fyrirtækja. Sömuleiðis séu ákvæði um skyldur seljenda gagnvart viðskiptavinum samkvæmt lögum um verslunaratvinnu óþörf enda fjallað um skyldur þeirra í öðrum lögum.

Samkeppnishamlandi

Þórdís segir eftirtektarvert að á meðal þeirra sem vara við einföldun regluverks séu ekki aðeins stjórnmálamenn heldur líka stærri fyrirtæki. Það skýrist af því að þau hafi, ólíkt minni keppinautum, burði til að uppfylla strangar kröfur og því sé regluverkið í raun vörn gegn samkeppni. „Þetta er til þess fallið að auka kostnað, draga úr skilvirkni, hamla samkeppni, hækka vöruverð og skerða samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum löndum,“ segir Þórdís.

Þar með sé þó ekki stefnt að „villta vesturs-ástandi“ heldur einungis hóflegri einföldun, bætir hún við og boðar jafnframt að hér sé um fyrsta áfanga af þremur að ræða í einföldun regluverks þeirra málaflokka sem heyra undir atvinnuvegaráðuneytið, ráðuneyti hennar og Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert