Dæmigerður stjórnmálamaður á einum sólarhring

Guðmundur Ingi var um helgina kjörinn varaformaður Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi var um helgina kjörinn varaformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það veldur mér vonbrigðum að ráðherra hafi á einum sólarhring frá því að hann steig formlega inn í flokksstarf orðið að hinum dæmigerða stjórnmálamanni,“ sagði Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, um svar Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Guðmundur Ingi var um helgina kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hefur tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram fyrir flokkinn í næstu þingkosningum, en Guðmundur Ingi er utanþingsráðherra.

Logi beindi máli sínu að þeim málamiðlunum í loftslagsmálum sem þingflokkur Vinstri grænna hefði þurft að gera vegna veru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og spurði hvort Guðmundur Ingi teldi það mögulegt að fá Sjálfstæðisflokkinn með sér í lið, svo sem til þess að verja 2,5% af landsframleiðslu til loftslagsmála eins og milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna gerir kröfu um.

Íslendingar mestu umhverfissóðar í heimi

Guðmundur Ingi svaraði því til að 2,5% viðmiðið ætti ekki við hér á landi þar sem átt væri við við hlutfall af framleiðslu á heimsvísu til breytinga á orkukerfum í öllum heiminum og að Ísland væri þegar búið að ráðast í hluta af þessu, svo sem með hitaveituvæðingu og framleiðslu rafmagns.

Það var vegna þessa svars Guðmundar Inga sem Logi sakaði hann um að hafa orðið að dæmigerðum stjórnmálamanni á einum sólarhring og benti á að Íslendingar væru mestu umhverfissóðar í heimi. 

Guðmundur Ingi tók undir með Loga um að meira þyrfti að gera og lofaði því að Íslendingar yrðu engir eftirbátar annarra Evrópuþjóða þegar kæmi að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert