Vilja að farþegar en ekki lögmenn fái bæturnar

Tekið á móti flugvél Air Iceland Connect á Egilsstaðaflugvelli.
Tekið á móti flugvél Air Iceland Connect á Egilsstaðaflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Ástæða þessara skilmálabreytinga er einfaldlega sú að við viljum tryggja að bætur sem farþegi á rétt á skili sér að fullu til hans, farþegans sem á rétt á bótunum, og lendi ekki í höndum milliliða sem í rauninni veita litla þjónustu,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, í samtali við mbl.is.

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður hjá ESJA Legal sem starfrækir þjónustuna Flugbætur.is, ræddi við mbl.is fyrr í dag og sagði skilmálabreytinguna algjörlega ósiðlega og ömurlega viðskiptahætti af hálfu flugfélagsins, en skilmálabreytingin felur það í sér að farþegar verða nú sjálfir að leggja fram kröfu um bætur til flugfélagsins, en ekki fá lögmenn eða aðra innheimtuaðila til þess að gera það.

Árni segir í samtali við blaðamann að það sé einfalt fyrir farþega að sækja þær bætur sem þeir eigi rétt á, til dæmis vegna seinkana á flugi, með því að fylla út þar til gert form á vefsíðu Air Iceland Connect. Bótakröfurnar séu svo afgreiddar, jafnvel samdægurs, en oftast eftir nokkra daga.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er eðlilegt, þar sem þetta eru tiltölulega einföld mál, að beina farþegunum í þann farveg að leita beint til okkar og fá sínar bætur greiddar beint frá okkur. Sumir hafa verið með óvönduð vinnubrögð í þessum málum og við viljum beina farþegum á að koma beint,“ segir Árni, sem segir að þarna sé flugfélagið að hugsa um hag neytenda.

„Eins og í þessu tilfelli hjá honum er hann [Ómar lögmaður] að taka 25% af þessum bótum til sín og við höfum lent í því að farþegar hafa síðan haft samband við okkur og spurt: „Hvar er restin af bótunum?“ því þeir hafa falið aðilum sem þessum að innheimta fyrir sig,“ segir Árni við blaðamann.

Framkvæmdastjórinn segir að það sé engum bannað að njóta aðstoðar lögmanns við að sækja bætur, en einstaklingar þurfi sjálfir að senda bótakröfuna á flugfélagið. Sé fólk síðan ósátt við niðurstöðuna sé ekkert sem komi í veg fyrir að það geti leitað til lögmanns.

Hann segir enn fremur að erlendis, til dæmis í Bretlandi, hafi sambærilegir skilmálar flugfélaga komið til kasta dómstóla og þar hafi verið fallist á þau sjónarmið að um aukna neytendavernd sé að ræða.

„Það er ástæðan, það er aukin neytendavernd sem við erum að leggja upp með og að neytendur fái þær bætur sem þeir eiga rétt á,“ segir Árni.

Framkvæmdastjórinn segir að það sé engum bannað að njóta aðstoðar …
Framkvæmdastjórinn segir að það sé engum bannað að njóta aðstoðar lögmanns við að sækja bætur, en einstaklingar þurfi sjálfir að senda bótakröfuna á flugfélagið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert