Vilja CBD-vörur í almenna sölu á Íslandi

Í greinargerð með tillögunni segir að spurn eftir aðgengi að …
Í greinargerð með tillögunni segir að spurn eftir aðgengi að vörum sem innihalda CBD hér á landi sé nú þegar talsverð. Mynd frá ráðstefnu um kannabistengdar vörur sem fram fór í Los Angeles í Bandaríkjunum fyrir skemmstu. AFP

Þingmenn allra flokka á Alþingi nema Vinstri grænna og Miðflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem felur í sér skilaboð til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að sjá til þess að heimilt verði að selja vörur sem innihalda CBD (cannabidiol) í almennri sölu hér á landi. CBD er annað tveggja helstu virku efnanna í kannabisplöntum og er það ekki vímugjafi.

Oft er talað um þær plöntur innan kannabisættkvíslarinnar sem innihalda lítið magn vímugjafans THC (tetrahydrocannabinol) sem iðnaðarhamp. Í greinargerð með tillögunni segir að með einföldum hætti sé hægt að vinna CBD úr iðnaðarhampi og að mörg nágrannaríki Íslands hafi farið þá leið að heimila vinnslu og lausasölu á afurðum iðnaðarhamps, þegar styrkleiki THC, vímugjafans, er innan við skilgreind mörk.

Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, sem alls ellefu þingmenn …
Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, sem alls ellefu þingmenn leggja fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hér á landi er CBD skil­greint sem inni­halds­efni í lyfi, þar sem það er inni­halds­efni í lyfi með markaðsleyfi, það fell­ur und­ir lyfja­lög og því er óheim­ilt að flytja efnið inn sem fæðubót­ar­efni til einka­nota. Því þyrfti reglugerðar- eða lagabreytingar til þess að heimilt væri að selja CBD-vörur í almennri sölu og það vilja þingmennirnir sem standa að tillögunni að heilbrigðisráðherra geri.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kvaðst opin fyrir því að endurskoða laga- og regluverk varðandi framleiðslu iðnaðarhamps hér á landi er Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, spurði hana út í málið á Alþingi í síðustu viku.

Í greinargerð með tillögunni segir að spurn eftir aðgengi að vörum sem innihalda CBD hér á landi sé nú þegar talsverð. Fjallað var um það sama í Morgunblaðinu í október í fyrra, en þar kom fram að talsverð aukning hefði verið á innflutningi fæðubótarefna sem innihalda CBD til landsins, þá yfirleitt í olíuformi eða í hylkjum.

„Rétt er að bregðast við þeirri eftirspurn og heimila slíkt aðgengi, enda eru engin rök sem mæla gegn því. Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga,“ segir enn fremur í greinargerðinni.

Alls standa 11 þingmenn að þingsályktunartillögunni, fimm úr þingflokki Pírata, tveir frá Viðreisn og einn frá Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Flokki fólksins.

Þingsályktunartillagan í heild sinni á vef Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert