Segja stöðu sjúkraflugs óviðunandi

Ein sjúkraflugvél sinnir sjúkraflugi á öllu landinu eins og staðan …
Ein sjúkraflugvél sinnir sjúkraflugi á öllu landinu eins og staðan er í dag og er hún staðsett á Akureyri. mbl.is/RAX

„Eins og staðan er í dag er aðeins ein sjúkraflugvél sem sinnir sjúkraflugi á öllu landinu og er hún staðsett á Akureyri. Slíkt fyrirkomulag býður þeirri hættu heim að sjúkravélin sé upptekin í útkalli í einum landshluta þegar bráðaútkall kemur í öðrum.“

Á þetta benda Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ, og Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, í aðsendri grein í Morgunblaðinu dag. 

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.
Hafdís Gunnarsdóttir, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. Ljósmynd/Aðsend

Þær segja öflugt sjúkraflug einn mikilvægasta lið í öryggi landsmanna sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. „Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er sannarlega víðsvegar um landið en þegar kemur að sérhæfðri bráðaþjónustu er hún fyrst og fremst veitt í Reykjavík og þá skiptir hver mínúta við sjúkraflutninga íbúa á landsbyggðinni lífsspursmáli,“ segir meðal annars í greininni. 

Þær segja aðstæður í sjúkraflugi óviðunandi og vísa í skýrslu ríkisendurskoðunar frá 2013 um viðbragðstíma sjúkraflugs og þróun þess. „Þar kom skýrt fram að viðbragðstími vegna sjúkraflutninga til Vestfjarða og Vestmannaeyja hefur aukist í kjölfar þess að miðstöð sjúkraflugs var flutt til Akureyrar. Samkvæmt skýrslunni jókst viðbragðstími að meðaltali um tvær mínútur fyrir Vestfirði en 24 mínútur fyrir Vestmannaeyjar og stendur þar svart á hvítu „að ljóst er að þessi munur getur í einhverjum tilvikum skipt sköpum“.“ 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum
Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum Ljósmynd/Aðsend

Þá segjast greinarhöfundar þekkja dæmi úr sínum samfélögum þar sem slíkar dýrmætar mínútur hafa haft óafturkræfar afleiðingar fyrir sjúklinga. 

Viðbragðstími allt að 105 mínútur

Þær segja það fyrirkomulag sem er í dag, það er að ein sjúkraflugvél sem sinnir sjúkraflugi á öllu landinu, bjóði þeirri hættu heim að sjúkravélin sé upptekin í útkalli í einum landshluta þegar bráðaútkall kemur í öðrum. Viðbragðstími gæti því orðið allt að 105 mínútur. 

„Í eftirfylgniskýrslu um stöðu sjúkraflugs sem birtist 2016 gagnrýndi ríkisendurskoðun þann seinagang sem ríkt hefur í þessum mikilvæga málaflokki. Jafnframt gagnrýndi hún samskiptaleysi milli þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga, en á þeim sex árum frá því skýrslan kom fyrst út hafa aðstæður í sjúkraflugi lítið sem ekkert breyst til þessara dreifðu byggða. Á sama tíma hefur ríkisvaldið dregið úr sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, á meðan stórfelld aukning erlendra ferðamanna á landinu veldur því að fjöldi og kostnaður vegna sjúkraflugs fer vaxandi frá ári til árs,“ skrifa þær Hafdís og Hildur. 

Fyrir hönd íbúa í Vestmannaeyjum og á Vestfjörðum skora þær á þingmenn og viðeigandi ráðuneyti að grípa tafarlaust til aðgerða vegna sjúkraflugs þessara byggðarlaga. Með blönduðu kerfi sjúkra- og björgunarþyrlna, þar sem sérútbúin sjúkraþyrla yrði staðsett á Suðurlandi og björgunarþyrla Landhelgisgæslu á Vestfjörðum, yrðu stigin mikilvæg skref í þá átt að jafna aðgengi landsmanna að sérhæfðri bráðaþjónustu en samkvæmt lögum eiga allir landsmenn að eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert