Tveimur mönnum bjargað úr brennandi íbúð

Tveimur mönnum var bjargað úr brennandi íbúð í Mávahlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík á öðrum tímanum í nótt og voru þeir fluttir á bráðadeild Landspítalans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki vitað um ástand mannanna.

Eldurinn kom upp í kjallara og voru efri hæðir rýmdar meðan slökkvistarf stóð yfir en íbúar þar fengu að fara aftur í íbúðir sínar er slökkvistarfi lauk. 

Mikill reykur var í kjallaranum þegar slökkvilið kom á vettvang og eldur sjáanlegur. Slökkvistarf gekk greiðlega og lauk reykræstingu á fjórða tímanum. 

Eldsupptök eru ókunn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert