Vill fara varlega varðandi CBD

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, læknir og varaformaður velferðarnefndar, vill …
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, læknir og varaformaður velferðarnefndar, vill stíga varlega til jarðar varðandi aukið aðgengi að CBD-vörum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara þeirrar skoðunar að þangað til að við erum með meiri upplýsingar um CBD í læknisfræðilegum tilgangi, þá eigum við að fara varlega og stíga eitt skref í einu,“ sagði Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, læknir og varaformaður velferðarnefndar, í umræðum um þingsályktunartillögu ellefu þingmanna úr fimm flokkum sem felur í sér að fela heilbrigðisráðherra að sjá til þess að CBD-vörur verði aðgengilegar í almennri sölu á Íslandi.

Rætt var um tillöguna á Alþingi í gær og verður hún í kjölfarið rætt í velferðarnefnd. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður tillögunnar og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, tóku til máls auk Ólafs.

CBD, eða kannabídól, er eitt af virku efnunum í kannabisplöntum, en er ekki vímugjafi og má finna í margvíslegum fæðubótarefnum sem framleidd eru erlendis. Sagði Halldóra að þar sem efnið væri ekki vímugjafi né ávanabindandi væru „fá eða engin rök“ fyrir því að það skyldi flokkað sem ávana- eða fíkniefni eða lyf.

Ýmis fæðubótarefni sem innihalda CBD eru aðgengileg í almennri sölu …
Ýmis fæðubótarefni sem innihalda CBD eru aðgengileg í almennri sölu erlendis. AFP

Í dag fellur efnið undir lyfjalög, sem innihaldsefni í lyfi með markaðsleyfi og því er fólki óheimilt að flytja efnið inn sem fæðubótarefni.

Af Vísindavefnum: Hvað er hampur, í hvað er hann notaður og er hann ræktaður á Íslandi?

Þá er ræktun á iðnaðarhampi (cannabis sativa), þeim kannabisplöntum sem innihalda aðallega CBD en lítið af vímugjafanum THC (tetrahýdrókannabínól), lagalega á gráu svæði hérlendis. Hægt er að nota iðnaðarhamp í ýmsa iðnaðarframleiðslu.

Líkti CBD við lýsi

„Efnið veldur engri vímu, það er ekki ávanabindandi og notkun þess getur verið til hagsbóta fyrir einstaklinga,“ sagði Halldóra, sem telur augljóst að heimila ætti CBD í almennri sölu og líkti efninu við vítamín eða lýsi. Engum dytti í hug að gera slík efni lyfseðilsskyld.

Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Þór sagðist þó „ekki alveg kominn þangað“ að við ættum að fara alla leið í að heimila efnið í almennri sölu. Hann sagðist líta á CBD sem hvert annað lyf, sem notað væri við sjúkdómseinkennum og kvillum af ýmsu tagi og lagði til að CBD-vörur yrðu þess í stað gerðar lyfseðilsskyldar. Hann sagði, máli sínu til stuðnings, að enn væri ekki til sérlega mikið af rannsóknum sem sýndu fram á notagildi lyfsins eða gagnsemi, þó þær væru einhverjar.

Hann sagði að í því fælist ákveðin neytendavernd að CBD, eins og önnur virk efni, þyrfti að gangast undir sömu skilyrði hvað varðar framleiðsluferli og önnur lyf sem notuð væru við sjúkdómum.

Málið gengur nú sem áður segir til velferðarnefndar þingsins, sem skipuð er níu þingmönnum. Þrír þeirra eru á meðal flutningsmanna þingsályktunartillögunnar, en auk Halldóru eru það Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert