Tæknilegar flækjur ekki pólitík

Steinunn Þóra Árnadóttir situr í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og í þingmannahópi …
Steinunn Þóra Árnadóttir situr í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og í þingmannahópi Vinstri grænna á Norðurlöndum. Magnus Fröderberg/norden.org

Talsvert hefur verið rætt um stjórnsýsluhindranir þegar kemur að flutningi fólks á milli landa á Norðurlöndunum og þær eru að stórum hluta tæknilegt mál ekki pólitískt, segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG sem situr í Norðurlandaráði, en hún tók þátt í umræðum um þessi mál á þinginu í Stokkhólmi.

Grundvallarsamningar sem tryggja frjálsa för milli Norðurlanda, svo sem vegabréfasambandið, sameiginlegur vinnumarkaður, félagsmálasáttmálinn og sameiginlegur menntamarkaður, eru dæmi um formlegt samstarf Norðurlanda á fyrstu árunum eftir heimsstyrjöldina síðari. Afnám stjórnsýsluhindrana hefur verið meðal höfuðviðfangsefna norrænnar samvinnu, einkum frá fyrstu árum þessarar aldar.

Markmið samvinnunnar hefur um margra ára skeið verið „Norðurlönd án landamæra“. Sú framtíðarsýn að gera Norðurlönd að samþættasta svæði veraldar samræmist því vel hvernig norræn samvinna hefur þróast fram að þessu.

Frjáls för milli landa og samþætting Norðurlandanna eru meðal meginstoða norrænnar samvinnu. Framkvæmdaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um frjálsa för milli Norðurlanda 2019–2021, sem samþykkt var á fundi samstarfsráðherranna í febrúar 2019, er enn eitt skrefið í átt að gera Norðurlönd að samþættara svæði með fleiri möguleikum og færri stjórnsýsluhindrunum, segir í greinargerð samstarfsráðherranna um frjálsa för og stjórnsýsluhindranir sem var kynnt á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Steinunn segir að til þess að Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims þurfi það að vera þannig að fólk komist auðveldlega á milli landa. „Unga fólkið í Norðurlandaráði hefur þess vegna lagt mikla áherslu á rafræn skilríki. Því fylgja tæknileg vandamál. Þetta er spurning um að þau séu örugg til að mynda sé ekki hægt að hakka sig inn á þau, þannig að það tekur tíma að koma þessu á en þetta skiptir miklu máli fyrir fólk sem vill flytjast á milli landa,“ segir Steinunn Þóra.

Misflókin mál

Tæknimálin eru misflókin og í einhverjum tilvikum þarf að taka pólitískar ákvarðanir til þess að leysa þau segir Steinunn Þóra. „Þetta er umræða sem alltaf í gangi og verið er að bregðast á við á ólíkum og mörgum stöðum. Í sumum tilvikum þarf aðeins að laga og samræma vinnulag en önnur mál eru flóknari,“ segir Steinunn.

Hún segir að eitt af því sem verið er að ræða sé innleiðing á EES-reglum og að hún sé eins alls staðar á Norðurlöndunum. Með því er hægt að koma í veg fyrir nýjar flækjur.

Að sögn Steinunnar er unnið að þessu og hefur gengið vel undanfarið ár að leysa úr alls konar tæknilegum hindrunum. Hún segir að þrátt fyrir að þetta sé aðallega tæknilegt mál ekki pólitískt sé mikilvægt að ræða þessar stjórnsýsluhindranir hér á þingi Norðurlandaráðs.

Fólk sem sækir vinnu í Noregi frá öðru norrænu ríki njóta sömu réttinda

Aðgerðir samkvæmt framkvæmdaáætluninni eru í meginatriðum af tvennu tagi:

 1) Aðgerðir sem stuðla að frjálsri för með beinum hætti, þ.e. tryggja Norðurlandabúum – meðal annars börnum og ungmennum, námsfólki, kennurum, fræðimönnum, listamönnum og atvinnuleitendum – góð tækifæri til að ferðast til annars norræns ríkis en heimalandsins til náms eða starfa

 2) Aðgerðir sem greiða fyrir frjálsri för (undir þetta fellur m.a. afnám stjórnsýsluhindrana), þ.e. hafa það markmið að skapa betri forsendur fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlandanna.

Vinnan við afnám stjórnsýsluhindrana er einn af helstu þáttum þess starfs sem unnið er í norrænu ráðherranefndinni til að auðvelda frjálsa för milli Norðurlanda.

Meðal annarra helstu markmiða framkvæmdaáætlunar norrænu ráðherranefndarinnar má nefna:

1) Að koma á fót norræn-baltnesku svæði án landamæra, meðal annars með því að koma því til leiðar að rafræn auðkenni njóti viðurkenningar yfir landamæri.

 2) Að vinna að samræmingu norrænna byggingastaðla.

3) Að tryggja að starfsréttindi njóti sjálfvirkrar viðurkenningar milli ríkjanna.

Á tímabilinu 1. júlí 2018 til 30. júní 2019 hlutu afgreiðslu 13 þeirra stjórnsýsluhindrana sem ráðið hafði skilgreint sem forgangsmál. Tíu hindrunum var rutt úr vegi og þrjú mál voru felld niður í hlutaðeigandi ráðuneyti. Eftirtalin mál voru leyst:

  1. Umsókn um framhaldsskólanám í Noregi
  2. Innflutningur á norskum laxaseiðum til Svíþjóðar
  3. Fjögurra mánaða reglan í Finnlandi
  4. Kröfur sem varða ferðaskilríki í tengslum við flug innan Norðurlanda
  5. Óljós réttur til almannatrygginga hjá þeim starfsmönnum EES sem vinna bæði í Svíþjóð og Danmörku
  6. Kröfur um gögn vegna skráningar í þjóðskrá í Noregi
  7. Réttur til starfsleyfis til að sinna pólitísku starfi í öðru norrænu ríki (leyst í Noregi)
  8. Viðurkenning á grænlenskum ökuskírteinum (leyst í Danmörku)
  9. Norrænir sjúkraliðar í Danmörku – veiting réttinda/heimildar til að starfa sem social- og sundhedsassistent (leyst að því er varðar helsefagmedarbejder frá Noregi)
  10. Lægri fæðingarorlofsgreiðslur vegna námslána eða námsstyrkja frá „röngu“

Þeir íbúar í öðru norrænu ríki sem hafa starfað sem launþegar í Finnlandi skemur en 4 mánuði njóta nú fullrar aðildar að almannatryggingum í Finnlandi þar sem þeir vinna. Áætlað er að hér sé um að ræða 1.500 einstaklinga.

Við skráningu Norðurlandabúa í þjóðskrá í Noregi hafa komið í ljós vandkvæði sem tengjast ströngum kröfum um framlagningu gagna og misræmi í málsmeðferð í norska stjórnsýslukerfinu. Stjórnsýsluhindranaráð tók málið upp og hefur nú fengið þær upplýsingar frá stjórnvöldum í Noregi að vandinn hafi verið leystur

Starfsfólk sem sækir vinnu í Noregi frá öðru norrænu ríki (um 35.000 launþegar) njóta nú sömu lýðræðislegu réttinda og starfsfólk í heimaríkinu. Þetta þýðir að samkvæmt nýrri norskri löggjöf er starfsfólki sem sækir vinnu í Noregi frá öðru landi heimilt að taka sér leyfi frá störfum til að sinna stjórnmálastörfum í heimasveitarfélagi sínu (t.d. að sækja nauðsynlega fundi sem fulltrúar í sveitarstjórn eða sinna störfum sem kommunalråd í sænsku nágrannasveitarfélagi). Stjórnsýsluhindranaráð hyggst vinna áfram að þessu máli til þess að ná fram lausn fyrir öll Norðurlönd.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti framsögu um stafræn málefni á þingi …
Sigurður Ingi Jóhannsson flutti framsögu um stafræn málefni á þingi Norðurlandaráðs. Johannes Jansson/Norden.org

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, hafði framsögu um stafræn málefni á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og kom þar inn á þær stjórnsýsluhindranir sem stefnt er að því að leysa.

Stefnt er að því að bjóða íbúum Norðurlandanna betri og skilvirkari opinbera og einkarekna þjónustu.

Eitt dæmi eru sameiginlegar rafrænar auðkenningarlausnir, sem eiga að skapa grundvöll fyrir enn samþættara svæði þar sem auðveldara verður að stunda vinnu, nám og ferðast yfir landamæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Í apríl 2017 undirrituðu ríkisstjórnir Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sameiginlega yfirlýsingu (Digital North-yfirlýsinguna) um að skapa svæði sem ætlaði sér að vera leiðandi í stafrænum umskiptum á ríkisstjórnum og samfélögum, að efla samkeppnishæfni fyrirtækja  með stafrænum lausnum og að þróa stafrænan innri markað á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem byggi á stafrænum grunni ESB.

Í því skyni að hrinda markmiðunum í framkvæmd og samræma samstarfið var norrænu ráðherranefndinni um stafræna væðingu (MR-Digital) 2017–2020 komið á fót. Ráðherranefndin ber meginábyrgð á stuðningi við vinnuna með meginmarkmið yfirlýsingarinnar. 

Meðal helstu forgangsmála norrænu ráðherranefndarinnar um stafræna væðingu (MR-Digital) eru: Rafræn auðkenni og aðgangur að stafrænni þjónustu yfir landamæri (t.d. rafrænum lyfseðlum, rafrænum reikningum, rafrænum innkaupum og rafpósti til íbúanna). Hraðari uppbygging 5G-kerfisins og gervigreind.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert