Hver í friði með sín ráðuneyti

Frá Silfrinu í dag.
Frá Silfrinu í dag. Skjáskot/RÚV

„í ljósi þess hvaða flokkar skipa þessar ríkisstjórn held ég að það sé ekki hægt að meta það öðruvísi en að það hafi tekist einstaklega vel til,“ segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur. 

Baldur var gestur Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu í dag ásamt Árna Helgasyni lögfræðingi og borgarfulltrúunum Hildi Björnsdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur. 

Kjörtímabil ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir er hálfnað nú í nóvember og fóru gestir Silfursins yfir störf hennar síðustu tvö ár.  Baldur segir ljóst að ríkisstjórninni hafi tekist að komast í gegnum erfið mál það sem af er kjörtímabils, þrátt fyrir ólík stefnumál flokkanna. 

„Leiðtogar stjórnarflokkanna eru að vinna mjög náið saman, ríkisstjórnin hefur komist í gegnum erfið mál; hina svokölluðu lífskjarasamninga, þriðja orkupakkann og hún náði líka að leysa úr því erfiða máli þegar Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi gegn gjörðum dómsmálaráðherra og dómsmálaráðherra þurfti að segja af sér, ríkisstjórnin komst í gegnum það,“ segir Baldur. 

Allir fá sitt

„Katrínu tekst að leiða þessa stjórn mjög vel. Kannski nær hún þessari samstöðu með því að einstaka ráðherrar fá að vera í friði með eigin ráðuneyti og reka stefnu síns flokks þar án kannski mikillar afskiptasemi annarra. Vinstri græn fá að vinna að heilbrigðismálunum og koma í veg fyrir frekari einkavæðingu þar, fá að vinna að umhverfismálunum og réttindum kvenna. Sjálfstæðisflokkurinn fær að lækka skatta, draga úr reglugerðavæðingu, allir fá svona sitt. Það virðist vera lausnin á mismunandi stefnum flokkanna. Ef þú lítur á það hvernig samstarfið gengur virðist það ganga bara mjög vel,“ segir Baldur. 

Hann segir þó að í ljósi skoðanakannana séu stjórnarflokkarnir í nokkuð erfiðri stöðu. Þá spáir hann því að þegar líður á síðari hluta kjörtímabilsins muni pólitík í samstarfinu aukast. 

„Hins vegar eru flokkarnir í einhverri klípu og geta fengið að finna fyrir því í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er í rauninni klemmdur, annars vegar á milli nýs og frjálslynds flokks Viðreisnar og íhaldsflokks Miðflokksins. Þessir flokkar kroppa í fylgi flokksins.“

Stjórn stöðugleika

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi segist vera ánægð með starf ríkisstjórnarinnar síðastliðin tvö ár. Hún segist vera þeirrar skoðunar að margt hefði mátt fara öðruvísi, en að þegar svo ólíkir flokkar myndi ríkisstjórn verði að miðla málum um ákveðna hluti. 

Þá telur Hildur að ríkisstjórninni hafi tekist vel til að koma á stöðugleika í íslenskum stjórnmálum eftir óstöðugleika síðustu ára. Núverandi ríkisstjórn sé „stjórn stöðugleika“.

Spurð um viðbrögð við dræmu fylgi Sjálfstæðisflokksins svaraði Hildur að verðugt væri að kanna þær aðstæður sem liggi því að baki. Það sé þó ekki alltaf að marka slíkar kannanir. 

„Ég held að reynslan hafi sýnt að það sé nú ekki mikið að marka svona kannanir á miðjum kjörtímabilum. Við þurfum bara að sjá hvernig það þróast. Ég er ánægð með mitt fólk og mér finnst þau vera standa sig vel. Þau eru búin að standa af sér verulega storma síðustu misseri og mér sýnist þau standa nokkuð sterkum fótum,“ segir Hildur. 

Engar kerfisbreytingar væntanlegar 

Sigurborg Ósk segir ýmislegt jákvætt hafa gerst á síðustu tveimur árum, en að ljóst sé að engar stórar kerfisbreytingar verði gerðar á vakt núverandi ríkisstjórnar.

„Það er ýmislegt jákvætt sem ríkisstjórnin hefur gert. Það hefur alveg komið í ljós að þessi ríkisstjórn ætlar að standa fyrir uppbyggingu innviða. En það verða engar stórar kerfisbreytingar á þessu kjörtímabili,“ segir Sigurborg. 

Sigurbjörg segir ákveðna íhaldssemi sameina stjórnarflokkana og að ekki megi búast við róttækum aðgerðum á þeirra stjórnartíð, þá sérstaklega í loftlagsmálum. Segir hún ríkisstjórnina setja ábyrgðina á sviði loftlagsmála á herðar almennings frekar en á stærri fyrirtæki og ríkisstjórnina sjálfa. Svo að nægilegur árangur náist í loftlagsmálum sé þörf á kerfisbreytingum og lykillinn að slíkum breytingum sé ný stjórnarskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert