„Kristin trú er ekki upphaf og endir alls siðferðis“

Baldur Þórhallsson í Silfrinu í dag.
Baldur Þórhallsson í Silfrinu í dag. Skjáskot/RÚV

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segir alveg ljóst hver afstaða þjóðkirkjunnar hafi verið í garð samkynhneigðra, jafnvel þó að einstaka prestar innan kirkjunnar hafi talað fyrir bættum réttindum samkynhneigðra. 

Baldur var gestur Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu í dag. Í útvarpsþættinum Vikulok í gær var rætt við séra Bjarna Karlsson, en hann svaraði þá ummælum Baldurs í þáttunum Svona fólk. Bjarni var einkar harðorður í garð Baldurs og sagði hann hafa farið með rangfærslur í þáttunum þegar Baldur sagði kirkjuna hafa á sínum tíma staðið gegn réttarbótum fyrir samkynhneigða. 

„Það er ágætt að halda því til haga að það voru alltaf prestar innan kirkjunnar sem studdu alla tíð mannréttindabaráttu samkynhneigðra. Þó svo að þessir einstöku prestar í sínum söfnuðum töluðu fyrir réttindum samkynhneigðra þá var alveg ljóst allan tímann hver afstaða kirkjunnar sem stofnunar var, hver afstaða biskupa og vígslubiskupa var,“ sagði Baldur um ummæli séra Bjarna. 

Afstaða kirkjunnar alla tíð ljós

Þrátt fyrir skoðanir einstakra presta segir Baldur þó ljóst að kirkjan sem stofnun reyndi að koma í veg fyrir allar helstu réttarbætur sem samkynhneigðir fengu á sínum tíma. 

„Kirkjan sem stofnun og biskupar hennar beittu sér gegn öllum þeim helstu réttarbótum sem samkynhneigðir fengu á sínum tíma. Það eru ekki nema fjögur ár síðan kirkjan breytti um stefnu og núna verða allir prestar að gifta fólk af sama kyni. Það var þannig til október 2015 að prestar þjóðkirkjunnar gátu neitað að gifta fólk af sama kyni,“ segir Baldur og vísar þar til svokallaðs samviskufrelsis presta. 

Segir hann mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum einstaka presta innan kirkjunnar og kirkjunnar sjálfrar sem stofnunar. 

Segir minnkandi traust hafa lítið með Biblíulestur að gera

Í þjóðarpúlsi Gallups sem kynntur var í síðustu viku kom fram að þeim Íslendingum sem treysta þjóðkirkjunni hafi fækkað um helming frá því um aldamót. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, taldi þetta meðal annars skýrast af því að ákveðið siðrof hafi orðið þegar kristinfræðikennslu var hætt í grunnskólum. 

Baldur telur helst tvær ástæður vera fyrir því að traust til kirkjunnar fari minnkandi. 

„Ég held að það séu tvö mál sem helst skýri minnkandi traust í garð kirkjunnar. Annars vegar misnotkun einstaka presta á konum og hvernig kirkjan meðhöndlaði þau mál sem voru mjög erfið fyrir kirkjuna á sínum tíma og ná langt aftur í tímann og svo afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra. Þessi mál veit ég að urðu til þess að fjöldi fólks sagði sig úr kirkjunni. Ég held að þetta hafi lítið með mikinn eða lítinn Biblíulestur í skólum að gera,“ segir Baldur. 

Baldur segir þó mikilvægt að því sé haldið til haga að kirkjan hafi breytt afstöðu sinni til mannréttindabaráttu samkynhneigðra og sagði hann meðal annars að það hafi verið biskupi til sóma að taka þátt í Hinsegin dögum í ágúst síðastliðnum. 

Hættulegt að telja sig rétthærri en aðra

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir var einnig gestur Sigmars í Silfrinu í dag. Hún segir kristinfræðikennslu í skólum varla vera ástæðu þess að traust í garð kirkjunnar fari minnkandi. 

„Það er að mínu mati á engan hátt eðlilegt að það sé bara kennd kristinfræði í skólum, að við séum að innræta börnum að ein trú sé rétta trúin, að ein trú sé rétthærri en önnur. Kristin trú er ekki upphaf og endir alls siðferðis. Sagan hefur sýnt okkur það. 

„Það er áhugavert að skoða þessi ummæli Agnesar biskups um þetta siðrof í tengslum við fyrri ummæli Karls Sigurbjörnssonar fyrri biskups um að kasta hjónabandinu á haugana. Ég vil meina að þetta sé af sama meiði, það er að segja að kirkjan telur sig á einhvern hátt rétthærri. Það er mjög hættulegt viðhorf í samfélaginu að telja að þú sért rétthærri og að þinn réttur nái lengra en einhvers annars,“ sagði Sigurborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert