Íslendingum og Bretum áfram kleift að flytjast milli ríkjanna

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á …
Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Íslensk og bresk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um fólksflutninga milli ríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES), fari svo að útgangan verði án samnings við ESB.

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í utanríkisráðuneytinu í dag.

Réttindi til áframhaldandi búsetu hafa þegar verið tryggð með samningum en nýja samkomulagið gerir Íslendingum og Bretum áfram kleift að flytjast milli ríkjanna til að stunda atvinnu eða nám og fá dvalarleyfi sem gilda í að minnsta kosti 36 mánuði, að því er fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins.

Íslendingar hafa um árabil sótt sér menntun og vinnu í Bretlandi og Bretar sem hér búa auðgað okkar samfélag. Áframhaldandi möguleikar fólks til að afla sér þekkingar og reynslu í Bretlandi munu einnig stuðla að góðum tengslum á öðrum sviðum,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra en hann er erlendis.

Samkomulagið gildir um þá sem flytja á milli ríkjanna frá útgöngudegi og til loka árs 2020. Ekki er hægt að semja lengra fram í tímann vegna þess að stefna Bretlands er enn í mótun.

Aðild­ar­ríki Evr­ópu­sam­bands­ins samþykktu í síðustu viku að fresta út­göngu Bret­lands úr sam­band­inu um þrjá mánuði, til 31. janú­ar. Áður stóð til að Bret­ar myndu yf­ir­gefa ESB 31. októ­ber. 

Enn ríkir óvissa um það hvernig útgöngu verði háttað og hvort hún verði á grundvelli útgöngusamnings við ESB eður ei. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga mun aðlögunartímabil taka gildi eftir útgöngu þar sem EES-samningurinn og reglur um frjálsa för fólks gilda áfram til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu, segir á vef utanríkisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert