Minnir á stöðu svartra á tímum aðskilnaðarstefnu

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hvetur fólk til að kynna sér …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, hvetur fólk til að kynna sér starf samtaka sem vilja sniðganga ísraelskar vörur. Ljósmynd/ASÍ

„Verkamaður í Palestínu sem vinnur í Ísrael þarf að vakna um miðja nótt til að koma sér að aðskilnaðarmúrnum þar sem oft tekur þrjá klukkutíma að koma sér í gegnum öryggishliðið.“ Á þessum orðum hefst pistill sem Drífa Snædal, forseti ASÍ, birti í á vef Alþýðusambandsins í dag.

Verkamaðurinn vinni svo mögulega átta stunda vinnudag og að honum loknum taki við sambærileg bið við aðskilnaðarmúrinn á heimleiðinni.

„Með ferðatímanum er viðkomandi heppinn ef hann nær heilum nætursvefni á milli þess sem hann vinnur og kemur sér í og úr vinnu. Fá atvinnuleyfi eru gefin út og gjarnan þarf að greiða miðlurum meira en helming launa sinna fyrir slíkt leyfi.“

ASÍ skipulagði nýlega ferð til Palestínu fyrir starfsfólk og kjörna fulltrúa og var fundað með palestínskum systursamtökum, friðarsamtökum, kvennasamtökum og palestínskum stjórnvöldum.

Segir Drífa Palestínumenn vinna hættulegustu og lægst launuðu störfin í Ísrael. Palestínskar konur séu heppnar fái þær yfirhöfuð vinnu og sé Palestínumönnum einungis heimilt að keyra á verri götum, þeir hafi ekki aðgang að eigin vatnsbólum, ferðafrelsi þeirra sé háð Ísraelsmönnum og tjái þeir sig um ranglætið geti þeir átt von á að frelsi þeirra sé skert enn frekar. Staða þeirra Palestínumanna sem búa á Gaza sé svo enn þá verri, enda sé „það svæði kallað stærsta fangelsi í heimi“.

„Stöðu Palestínumanna má líkja við stöðu blökkumanna í Suður-Afríku þegar aðskilnaðarstefnan var þar við lýði. Þeir eru hraktir til að búa á harðbýlustu svæðunum, verða fyrir endalausri hversdagslegri kúgun og litið er á þá sem ódýrt vinnuafl. Stöðugt er þrengt að landi þeirra með svokölluðum landnámsbyggðum Ísraela sem væri réttara að kalla landránsbyggðir,“ segir Drífa í pistli sínum.

Segir Drífa alla þá sem rætt var við hafa lagt áherslu á friðsama baráttu og sagt viðskiptabann vera áhrifaríkustu baráttuaðferðina. „Það minnsta sem við getum gert er að kynna okkur ástandið og standa með félögum okkar í Palestínu, vinnandi fólki sem er eins og fólk alls staðar annars staðar í heiminum. Það vill búa við frið, öryggi, mannréttindi og virðingu,“ segir hún og hvetur fólk til að kynna sér starfsemi alþjóðlegu BDS-hreyfingarinnar sem hvetur til þess að ísraelskar vörur séu sniðgengnar.

Aðskilnaðarmúrinn á Vesturbakkanum.
Aðskilnaðarmúrinn á Vesturbakkanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert