„Það var ljóst í hvað stefndi“

Svæðinu á Ketubjörgum á norðanverðum Skaga þar sem þúsunda tonna bjarg hrundi í sjó fram um helgina var lokað fyrir umferð fólks fyrir um fjórum árum, en þá varð fyrst vart við að sprunga var að myndast á bjargbrúninni. Mat lögreglu er að ekki sé aðkallandi hætta á staðnum, en svæðið verður kannað í dag.

Þetta segir Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki.  „Það var alveg ljóst í hvað stefndi; spurningin var bara hvenær þetta myndi gerast,“ segir Stefán Vagn. „Hættan var að einhver færi út á sylluna og hún myndi þá hrynja, en nú er hún farin og þetta fór eins vel og hægt var. Sem betur fer var enginn á staðnum þegar þetta gerðist. Eftir því sem við best vitum gerðist þetta um hádegisleytið á laugardaginn, samkvæmt jarðskjálfamælunum á Hrauni á Skaga. En það voru engin vitni að þessu þannig að þetta eru í raun bara getgátur.“

Á meðfylgjandi myndbandi, sem Elvar Már Jóhannsson tók, sést glöggt hversu mikið hrundi úr bjarginu.

Myndin er samsett og sýnir Ketubjörg fyrir og eftir hrunið.
Myndin er samsett og sýnir Ketubjörg fyrir og eftir hrunið.

Stefán Vagn segir að svæðið hafi verið girt af með borða merktum lögreglu frá því að fyrst varð vart við að sprungur væru að myndast í Ketubjörgum. „Það var gert 2015, en þessi lokun var orðin heldur tilgangslítil.“

Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Telja ekki aðkallandi hættu vera á staðnum

Sprungan var orðin um þrír metrar á breidd að sögn Stefáns áður en bjargið hrundi. Ljóst hafi verið í hvað stefndi. Hann segir að eitthvað sé um að ferðamenn fari á svæðið, en ógjörningur sé að fylgjast með því. 

Sprungan í Ketubjörgum áður en bjargið hrundi. Myndin er tekin …
Sprungan í Ketubjörgum áður en bjargið hrundi. Myndin er tekin í júlí 2016. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Okkar mat, samkvæmt því sem við vitum núna, er að ekki sé aðkallandi hætta á staðnum. Frá sjónarhorni lögreglu snýst þetta um að tryggja öryggi fólks. Við þurfum núna að meta næstu skref, ákveða til hversu mikilla aðgerða við munum grípa út af þessu eða hvort það sé einhverra annarra en okkar.“

Ketubjörg.
Ketubjörg. Ljósmynd/Elvar Már Jóhannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert