Vinnutími lengdist á milli ára

Á vinnumarkaði. Áætlað er að um 207 þús. manns hafi …
Á vinnumarkaði. Áætlað er að um 207 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði hér á landi í september 2019, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlað er að um 207 þúsund manns hafi verið á vinnumarkaði hér á landi í september 2019, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru u.þ.b. 200 þúsund starfandi og 6.700 atvinnulausir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar.

Þar segir að starfandi fólki hafi fjölgað mikið í þeirri uppsveiflu í hagkerfinu sem nú er að ljúka. Meðaltal fjölda starfandi hefur verið nokkuð stöðugt síðustu sex mánuði.

Innlendu starfsfólki fjölgaði um 1,8%, erlendu um 5,8%

Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands segir að niðurstöður úr staðgreiðsluskrá sýni einnig að fjöldi starfandi fólks á fyrri hluta ársins sé næstum sá sami og var á sama tíma í fyrra. Innlendum starfsmönnum á vinnumarkaði hefur fækkað um 1,8% á þessum tíma, en erlendu starfsfólki fjölgað um 5,8%.

Sé litið á tímabilið frá upphafi ársins 2014 fram á mitt ár 2019 hefur starfandi fólki fjölgað að meðaltali um 3,2% milli ára. Þar af hefur erlendu starfsfólki fjölgað að meðaltali um 15,3% á ári og innlendu um 1,3%. Á 2. ársfjórðungi í ár var erlendu starfsfólki enn að fjölga, en innlendu starfsfólki hafði fækkað um rúm 2% milli ára. Á seinni hluta ársins 2016 og seinni hluta 2017 fjölgaði erlendu starfsfólki að jafnaði um meira en fjórðung milli ára.

Svipuð kynjahlutföll í atvinnuleysi

6.700 manns voru atvinnulausir í september samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni eða um 3,2% af vinnuafli. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 7.100 manns á atvinnuleysiskrá í lok september, 3.830 karlar og 3.270 konur. Karlar voru því um 54% atvinnulausra, en voru um 52% í september í fyrra. Aukning skráðs atvinnuleysis á síðustu 12 mánuðum hefur því bitnað hlutfallslega verr á konum en körlum. Frá því í desember hefur atvinnulausum körlum fjölgað um u.þ.b. 1.040 og konum um u.þ.b. 770.

Fleiri erlendir starfsmenn á atvinnuleysisskrá

Í lok september voru rúmlega 2.600 erlendir starfsmenn á atvinnuleysisskrá, eða 37,1% atvinnulausra. Í lok desember sl. voru erlendir starfsmenn 35,4% atvinnulausra þannig að hlutfall þeirra hafði aukist nokkuð frá því í desember. Erlendum atvinnulausum hefur því fjölgað hlutfallslega meira en innlendum á þessu ári.

Sé litið á fjölda starfandi á vinnumarkaði samkvæmt staðgreiðsluskrá má sjá að atvinnuleysi innlendra starfsmanna er um 2,6% af þeim sem eru á vinnumarkaði. Atvinnuleysi erlendra starfsmanna er hins vegar 6,2% og meðalatvinnuleysi allra 3,3%.

Vikulegur vinnutími lengist 

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 38,7 stundir í september og hafði fjölgað um 0,8 stundir frá fyrra ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í september 38,9 stundir sem er 0,1 stundum styttri en í júlí 2018.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman milli ársfjórðunga hefur vinnuaflsnotkun aukist nær samfellt allt frá árinu 2012. Á 3. ársfjórðungi í ár dróst fjöldi starfandi saman um 0,4% og vinnutími lengdist um 0,1%. Vinnuaflsnotkun minnkaði því um 0,3% milli ára, en það gerðist síðast á 3. ársfjórðungi 2016 og þar á undan á árinu 2012.

Líklegt að atvinnuleysi muni aukast 

Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert