Ísland sett á bannlista

AFP

Íslenskum viðskiptavinum Cyprus Development Bank (CDB) var á dögunum neitað um millifærslu umtalsverðrar fjárhæðar á bankareikninga hér á landi. Samkvæmt gögnum sem Morgunblaðið hefur séð lýtur ákvörðunin að breyttri stefnu bankans um hvaða viðskiptavini hann samþykkir sem sína. Sú breyting tók gildi nú í nóvember.

Samkvæmt heimildum er Ísland á lista hjá bankanum yfir þau lönd sem ekki er heimilt að opna á millifærslur af neinum toga. Athygli vekur að Kýpur er ekki aðili að alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task Force (FATF) sem settu Ísland í síðasta mánuði á gráan lista vegna ónógra varna gegn peningaþvætti.

Krefjast mikils magns gagna

Í frétt ViðskiptaMoggans frá því á miðvikudag var haft eftir heimildum að ekki hefði verið haldið nægilega vel á spilunum hér á landi undanfarin ár hvað varðar reglur sem kveða á um að kanna eigi bakgrunn viðskiptavina áður en þeir hefja viðskipti (e. know your customer, KYC) ásamt innleiðingu laga um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Var þar haft eftir heimildum að sá möguleiki væri talinn raunverulegur að athuganir íslenskra fjármálafyrirtækja á viðskiptavinum sínum yrðu ekki teknar gildar. Því gætu erlendir bankar þurft að framkvæma eigin sjálfstæðar athuganir án þess að hafa til hliðsjónar athuganir íslensku bankanna vildu íslenskir einstaklingar eða lögaðilar stofna til viðskipta.

Heimildir Morgunblaðsins herma enn fremur að treglega hafi gengið undanfarnar vikur að millifæra greiðslur frá CDB til Íslands og að krafist hafi verið mikils magns gagna og vottana frá mörgum aðilum til þess uppfylla þau skilyrði sem bankinn krefst núorðið í anda KYC. Frá því í byrjun nóvember hafi svo slíkar millifærslur verið stöðvaðar að öllu leyti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert